Þetta staðfesti Aron við íþróttadeild í dag. Aron hefur átt í samningsviðræðum við landslið í mið-austurlöndum og gæti verið tíðinda að vænta í þeim vendingum fljótlega.
Aron tók við Barein í mars á síðasta ári og fór með liðið á Ólympíuleikana í Tókýó síðasta sumar og svo á Asíumótið. Aron staðfesti að hafa átt í viðræðum við Barein en þær viðræður hafa ekki enn borið árangur. Ljóst er að fleiri landslið eru með þjálfarann knáa undir smásjánni.
Þó svo Aron láti af störfum sem þjálfari Hauka þá mun hann áfram sinna störfum fyrir Haukana um ókomna framtíð. Verður í markaðsmálum og öðrum íþróttatengdum verkefnum.
Það hefur legið fyrir í nokkurn tíma að Aron sé að hætta með liðið og hann hefur þegar tilkynnt leikmönnum um ákvörðun sína.
Stjórn Hauka hefur eðlilega verið að leita að arftaka Arons síðustu misseri og herma heimildir íþróttadeildar að líklegasti arftakinn sé Rúnar Sigtryggsson.
Rúnar er fyrrum leikmaður Hauka og var síðast þjálfari hjá Stjörnunni. Síðan þá hefur hann gert það gott í Seinni bylgjunni á Stöð 2 Sport.