Skoðun

Fjarðabyggð fyrir öll

Kamilla Borg Hjálmarsdóttir skrifar

Notendastýrð persónuleg aðstoð er byggð á hugmyndafræðinni um sjálfstætt líf en sú hugmyndafræði gengur út á sjálfsákvörðunarrétt, jöfn tækifæri alls fólks og sjálfsvirðingu. NPA byggir einnig á mannréttindum fatlaðs fólks og réttindum þeirra til þess að lifa sjálfstæðu lífi í samfélaginu. Þjónustuformið er byggt upp á þann veg að notandi þjónustunnar stjórnar henni sjálfur. Fatlað fólk ákveður því sjálft hvernig þjónustu það fær, hvar þjónustan er veitt, hvernig, hvenær og hver veitir hana. Hér á landi hefur notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA) verið lögfest í lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks var fullgildur á Íslandi árið 2016 en hann er ekki lögfestur. Við fullgildingu samningsins ber ríkinu þó skylda til þess að tryggja fötluðu fólki þau lágmarksréttindi sem samningurinn kveður á um. 19.grein samningsins segir til um skuldbindingu aðildarríkja að tryggja fötluðu fólki tækifæri til þess að velja sér búsetustað og veita fötluðu fólki aðgang að persónumiðaðri þjónustu.

Í reglugerð um notendastýrða persónulega aðstoð nr. 1250/2018 er kveðið á um ábyrgð sveitarfélaga á gerð og framkvæmd NPA samninga ásamt fjárhagslegri framkvæmd þjónustunnar. Heildarkostnaður þjónustunnar skiptist á milli sveitarfélaga og ríkisins en sveitarfélög standa kostnað af 75% þjónustu en ríki 25%.

Ég tel mikilvægt að Fjarðabyggð beiti sér enn frekar fyrir bættri persónumiðaðri þjónustu við fatlað fólk í samræmi við lög og reglugerðir með samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks til hliðsjónar. Ég vil sjá sveitarfélagið okkar vekja athygli á mikilvægi lögfestingu samningsins og tel ég nauðsynlegt að þrýsta á ríkið í þeim efnum. Samningurinn grundvallast af nýju sjónarhorni á fötlun sem viðurkennir fatlað fólk sem beina þátttakendur í réttarkerfinu en ekki viðfangsefni annarra eins og áður hefur tíðkast. Öll eiga að fá tækifæri til að lifa sjálfstæðu lífi í samfélagi án aðgreiningar. Fjarðabyggð á að vera fyrir okkur öll.

Höfundur er þroskaþjálfi og skipar 14. sæti Fjarðalistans - lista félagshyggjufólks í Fjarðabyggð. 




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×