Rafíþróttir

Undanúrslit Stórmeistaramótsins í kvöld: Nær eitthvað lið að stöðva Dusty?

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Undanúrslit Stórmeistaramótsins fara fram í kvöld.
Undanúrslit Stórmeistaramótsins fara fram í kvöld.

Undanúrslit Stórmeistaramótsins í CS:GO fara fram í kvöld með tveimur viðureignum þegar Dusty og SAGA eigast við annars vegar, og hins vegar Þór og Vallea.

Dusty tryggði sér deildarmeistaratitilinn í Ljósleiðaradeildinni á dögunum og liðið þykir því líklegt til afreka á Stórmeistaramótinu. SAGA hafnaði í sjötta sæti og því ljóst að um bratta brekku er að ræða gegn deildarmeisturunum í kvöld.

Það má þó búast við meiri spennu í síðari viðureign kvöldsins þegar Þór og Vallea eigast við. Liðin enduðu í öðru og þriðja sæti deildarinnar og þarna eru tvö mjög jöfn lið að mætast.

Báðar viðureignir kvöldsins verða í beinni útsendingu á Stöð 2 eSport og hér á Vísi. Dusty og SAGA eigast við klukkan 18:15 áður en Þór og Vallea mætast klukkan 21:00. Vinna þarf tvo leiki til að komast áfram.

Í spilaranum hér fyrir neðan má sjá öll bestu tilþrifin úr átta liða úrslitum sem fram fóru seinustu helgi.

Klippa: Tilþrifin í átta liða úrslitum

Vill mæta deildarmeisturunum í úrslitum

miNideGreez vill mæta Dusty í úrslitum.

Karl Hólmar Clausen Holgerson, eða „miNideGreez“ eins og hann heitir í CS:GO, er leikmaður Vallea. Hann ræddi við Vísi um undanúrslitin sem framundan eru og hljómaði nokkuð öruggur fyrir viðureignina gegn Þór.

„Þetta leggst bara vel í mig. Við unnum þá síðast og ég þekki alla þessa stráka í Þórsliðinu. Maður þekkir svona á milli liðanna þannig að þetta er bara spennandi,“ sagði miNideGreez.

Hann segir þó að hann hefði viljað fá betri undirbúning fyrir liðið.

„Það er kannski ekki búinn að vera eins mikill undirbúningur og ég myndi vilja. Við erum náttúrulega allir í vinnu og svona en við reynum auðvitað að undirbúa okkur eins vel og við getum á þeim tíma sem gefst.“

Eins og áður hefur komið fram höfnuðu Þór og Vallea í öðru og þriðja sætir Ljósleiðaradeildarinnar og miNideGreez segir að búast megi við skemmtilegri rimmu.

„Jú þetta verður skemmtileg rimma þó að við vinnum hana,“ sagði hann léttur og ekki stóð á svörum þegar hann var spurður að því hvaða liði hann myndi vilja mæta í úrslitum.

„Dusty. Ekki viljum við spila á móti Sögu, við höfum margoft unnið þá. Þannig við viljum alltaf fá Dusty á móti okkur.“

Pökkuð helgi en stefna á sigur

Bjarni og félagar hans í Dusty hafa í nægu að snúast um helgina.

Bjarni Þór Guðmundsson, eða einfaldlega „Bjarni,“ er leikmaður Dusty og hann ræddi einnig við Vísi um komandi átök. Hann segist vera spenntur fyrir helginni, enda mikið framundan hjá deildarmeisturunum.

„Helgin leggst bara vel í mig. Það er pínu leiðinlegt að fá ekki að spila við Ármann, en það sem skiptir mestu máli er að við fáum að spila á „LAN-i“ og það verður gaman. Það kom aðeins á óvart að SAGA hafi komist áfram en þetta verður gaman,“ sagði Bjarni.

„Undirbúningurinn er búinn að vera mjög mikill. Við erum að keppa á LAN-viðburði í Digranesinu um helgina og líka bresku móti á sama tíma. Þannig að þetta er hlaðin helgi og mikil einbeiting í gangi.“

Bjarni hefur trú á því að liðið muni vinna undanúrslitin í kvöld nokkuð þægilega, og eins og kollegi sinn í Vallea á hann sér draumaandstæðing í úrslitum.

„Ég segi ekki að þetta verði auðvelt, en ég tel að við séum bara betri og trúi því að við tökum þetta 2-0.“

„Mig langar svo að spila við Þór í úrslitum. En ég get ekki spáð til um hvernig fer hjá þeim, þetta verður spennandi. Það væri alveg gaman að mæta Vallea, en ég vil frekar hefna mín á Þór,“ sagði Bjarni að lokum.

Sigurvegarar kvöldsins mætast svo í úrslitaviðureign sem fram fer á morgun. Eins og áður segir verður þetta allt í beinni útsendingu á Stöð 2 eSport og hér á Vísi, en allar viðureignirnar fara fram í þjóðarhöll íslenskra rafíþrótta, Arena.






×