Þetta er á meðal þess sem fram kemur í áliti sendinefndarinnar á stöðu og horfum íslensks efnahagslífs, sem gefið var út í dag.
Sendinefnd sjóðsins hefur verið hér á landi undanfarna daga og lagt mat á stöðu mála hér á landi. Um reglubundna heimsókn er að ræða sem hluti af árlegri úttekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á stöðu og horfum í íslensku efnahagslífi.
Sendinefndin greindi frá niðurstöðu sinni á blaðamannafundi í fundarsal í Hannesarholti í Þingholtunum í Reykjavík í morgun. Horfa má á upptöku frá fundinn hér að neðan.
Í álitinu kemur fram að nefndin telji að íslenskt efnahagslíf hafi tekist ágætlega að glíma við fjölmörg áföll frá árinu 2019. Horfur í efnahagslífinu sé jákvæðar en þó háðar töluverðri óvissu.
Í ágætri stöðu
Að mati sjóðsins tengist óvissan einkum alþjóðlegum efnahagsáhrifum stríðsins í Úkraínu, samdrætti í efnahagi á heimsvísu sem og kórónuveirufaraldrinum. Segir þó í áliti sjóðsins að íslenski efnahagurinn sé í ágætri stöðu til að takast á við mögulega neikvæða þróun tengda þessum þáttum.
Aðgerða þörf til að takast á við verðsveiflur húsnæðis
Í áliti sendinefndarinnar er sérstaklega vikið að stöðu húsnæðismarkaðarins hér á landi þar sem fram kemur að skörp hækkun húsnæðisverðs hér á landi að undanförnu sé áhættuþáttur.
Skörp leiðrétting húsnæðisverðs gæti veikt efnahagsreikninga heimila og fjármálageirans. Hækkun húsnæðisverðs hafi einnig haft neikvæð áhrif á getu fólks til að kaupa eigið húsnæði, sér í lagi fyrir yngra fólk og þá sem tekjulægri eru. Vel útfærðar og samræmdar aðgerðir séu nauðsynlegar til að takast á við húsnæðisverðssveifluna.

Endurhanna ætti stuðning hins opinbera í húsnæðismálum. Markvissari stuðningur við fólk á leigumarkaði og áframhaldandi fjárfesting í félagslegu húsnæði ætti að stuðla að hagkvæmara leiguverði, að mati sendinefndarinnar.
Gagnsæi og jafnræði skipta sköpum við sölu á bönkum í ríkiseigu
Í áliti sendinefndarinnar kemur fram að það ætti að vera eitt af lykilverkefnum íslensku ríkisstjórnarinnar að tryggja að eigendur banka hér á landi séu hæfir.
Er þar vísað í að ekki sé langt síðan íslenska bankakerfið féll á einu bretti árið 2008.

Gagnsæi og jafnræði skipti sköpum til þess að varðveita trúverðugleika allra sem í hlut eiga við sölu á bönkum í ríkiseigu. Setja ætti skilyrði fyrir þátttöku fjárfesta og viðmið fyrir hæfi þeirra í regluverki er snýr að sölu banka í ríkiseigu til þess draga úr orðspors- og stöðugleikaáhættu fyrir ríkið og fjármálakerfið.
Í þessu samhengi ætti Seðlabankinn að fara yfir framtíðaráform um sölu banka í ríkiseigu til þess að tryggja að gætt verði að hæfi og heilindum mögulegra fjárfesta og að tekið sé með viðunandi hætti á öðrum varúðartengdum þáttum, segir í áliti nefndarinnar.