Skoðun

Hvort viltu eignast börn eða vinna?

Guðrún Runólfsdóttir og Leifur Gunnarsson skrifa

Þetta eru ekki valkostir sem nokkur manneskja ætti að þurfa að velja á milli. Því miður er samt staðan þannig allt of víða í heiminum. Jafnvel á vesturlöndum svarar það víðast hvar ekki kostnaði fyrir foreldra að vera bæði útivinnandi áður en barnið fer í grunnskóla. Leikskólagjöld eru einfaldlega of há eða þjónustan ekki nóg aðgengileg.

Hvað þýðir þetta? Jú, til að stofna fjölskyldu þarf (nánast undantekningalaust) móðirin að hætta á vinnumarkaði og sinna barninu eða börnunum. Móðirin missir af verðmætum tíma á vinnumarkaði sem hefur óumflýjanlega áhrif á launakjör hennar til frambúðar. Enda er þetta meðal þeirra þátta sem viðheldur launamuni kynjanna. En samfélagið missir líka verðmætan starfskraft af vinnumarkaði. Það er nefnilega ekki bara móðirin sem tapar á þessu, samfélagið allt tapar á kynjamisrétti.

Fjölskylduvæn samfélög eru góð samfélög

Sem betur fer er þetta ekki alveg svona ýkt hér á landi. En með því að gera okkur grein fyrir stöðunni í heiminum sjáum við oft betur hvert við eigum að stefna hér á landi. Því miður er það normið að eftir að fæðingarorlof foreldra er liðið tekur óvissan við. Oft geta ömmur og afar hlaupið undir bagga og ef heppnin er með foreldrunum kemst kannski barnið inni hjá dagforeldri. En ekkert af þessu er gefið.

Það er enn þá allt of algengt að annað foreldri detti út af vinnumarkaði til að annast barn áður en það kemst inn á leikskóla. Oftar en ekki fellur það hlutverk mömmunni í skaut.

Þessu verðum við að breyta. Við Vinstri græn viljum að gjaldfrjáls leikskóli taki við fæðingarorlofi. Leikskólinn á að vera aðgengilegur öllum börnum óháð stétt eða stöðu foreldra þeirra. Þá eiga foreldrar að geta snúið aftur til starfa að fæðingarorlofi loknu. Það mun vafalaust kosta og sveitarfélög, ríki og aðilar vinnumarkaðarins munu þurfa að vinna saman að þessu markmiði. En þetta mun borga sig margfalt til baka. Við græðum öll á fjölskylduvænna samfélagi.

Bæði betra

Við Vinstri græn erum með skýra sýn hvernig við viljum sjá samfélagið. Í okkar huga er það risastórt réttlætismál að engin manneskja eigi að þurfa að spyrja sig þeirrar spurningar hvort hún vilji heldur eignast börn eða vinna. Fólk á að njóta þess frelsis að geta gert hvort tveggja.

Höfundar skipa 5. og 6. sæti á lista VG í Árborg.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×