Selenskí Úkraínuforseti sagði í ávarpi sínu í gærkvöldi að staðan í Donbas væri Úkraínumönnum erfið. Hann segir Rússa nú reyna af öllu afli að ná héruðunum á sitt vald en það hafi þeim mistekist í upphafi innrásar þeirra.
Fréttastofa Vísis, Stöðvar 2 og Bylgjunnar fylgist með þróun mála í Úkraínu í allan dag.
Helstu vendingar:
- Óttast er að Rússar setji á svið sýndarréttarhöld til að réttlæta innrás sína í Úkraínu. Denis Pushilin, leiðtogi Rússa í Donetsk hefur sagt að Rússar undirbúi nú alþjóðleg réttarhöld á svæðinu. Stjórnmálarýnendur hafa sagt að slíkum réttarhöldum verði ætlað að réttlæta innrásina með því að sakfella úkraínska hermenn fyrir nasisma.
- Nýjustu tölur frá Sameinuðu þjóðunum benda til þess að 4.031 almennur borgari hafi látið lífið síðan innrás Rússa hófst, þar af 261 barn.
- Aukinn slagkraftur hefur verið í sókn Rússa í austurhéruðum Úkraínu að undanförnu. Þeir hafa sölsað undir sig tvær minni borgir þar, þar á meðal Lyman þar sem er mikilvæg járnbrautarlestastöð
- Úkraínuher segist hafa fellt þrjátíu þúsund rússneska hermenn frá upphafi stríðsins.
- Rússnesk yfirvöld hafa afnumið aldurshámark fyrir hermenn til þess að laða fleiri borgaralega sérfræðinga í herinn fyrir átökin í Úkraínu.
- Litháum hefur tekist að hópfjármagna kaup á Baykar Bayraktar TB2 dróna sem til stendur að gefa Úkraínumönnum til að styðja við baráttu þeirra gegn Rússum.
Vakt gærdagsins má lesa hér.