Frumvarpið mætti mikilli andstöðu innan þingsins og var gagnrýnt linnulaust af bæði þingmönnum stjórnarandstöðunnar og ýmsum hjálparsamtökum. Þá afgreiddu Vinstri græn frumvarpið með fyrirvörum.
Vonar að frumvarpið endi í ruslinu
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata fagnar því að stjórnarandstöðunni hafi tekist að koma í veg fyrir afgreiðslu frumvarpsins í fjórða skiptið.
„Við teljum að með móttöku flóttafólks frá Úkraínu hafi stjórnvöld sýnt það að það er engin þörf á lagabreytingum bæði til að auka skilvirkni kerfisins og koma almennilega fram við fólk," segir Arndís.

Hún vonast til að frumvarpið endi í ruslinu og komi ekki aftur fram í haust. Hún telur þó að frestun afgreiðslunnar hafi ekkert með málamiðlanir ríkisstjórnar að gera.
„Ég held bara að það hafi orðið ljóst að það væri enginn tilgangur með þessum breytingum, þær myndu hvorki auka skilvirkni né bæta réttarstöðu. Það hefur því verið þannig að endingu að ekki hafi verið stuðningur fyrir þessu.“
Arndís kveðst að lokum klár í slaginn aftur ef málið kemur aftur upp í haust.