Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lögreglunni á Suðurlandi.
Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út um fimmleytið í gærþar sem erlendur ferðamaður hafði lent í sjónum við Reynisfjöru. Þyrlan kom á vettvang tæpri klukkustund síðar og náði manninum úr sjónum.
Í tilkynningu lögreglu segir að snarræðri nærstaddra hafi komið í veg fyrir að aldan hafi einnig hrifið eiginkonu mannsins sem lést með sér.
„Eiginkona mannsins lenti í sömu öldu en tókst, fyrir snarræði nærstaddra, sem komu til aðstoðar, að bjarga sér áður en hún sogaðist út í brimið.“
Björgunarsveitir af Suðurlandi og úr Vestmanneyjum voru kallaðar til aðstoðar ásamt þyrlusveit LHG.
Aðstæður til aðgerða úr landi voru erfiðar og hættulegar viðbragðsaðilum vegna mikils brims. Maðurinn var hífður upp í þyrluna strax og hún kom á staðinn en reyndist þá látinn.
Hjónin voru í stærri hóp í skipulagðri ferð á vegum ferðaskrifstofu.
Unnið er að rannsókn slyssins.
Alls hafa tólf alvarleg útköll borist vegna Reynisfjöru síðustu sjö árin, þar af hafa fimm látist. Ung kínversk kona lést í Reynisfjöru í nóvember þegar alda hreif hana með sér út í sjóinn.