Í færslu á Facebook, þar sem Guðni óskar sjómönnum til hamingju með daginn í dag, sjómannadag, segir hann frá því að í gær hafi honum hlotnast sá heiður að sigla með Óðni frá Reykjavíkur til Grindavíkur.
Lagt var af stað eldsnemma og fylgdist forsetinn með, ásamt öðrum skipverjum, æfingu Landhelgisgæslunnar. Allt var eins og á best verður á kosið, þangað til komið var neðan þilja og leið á siglinguna.
„Sjóveiki gerði vart við sig og þegar ég ætlaði að njóta indælis kjötsúpu sem borin var á borð fór á annan veg en ætlað var. Yfir vaski þurfti munnfylli af góðgætinu að fara sömu leið út og hún fór inn. Eftir góða sopa af gosi og ferskt loft tók maður gleði sína á ný,“ skrifar Guðni.
Þá segir hann frá því að hann hafi nýtt tímann vel á leiðinni.
„Í forsetasvítunni náði ég svo að skrifa lokaorð eftirmála bókar sem ég er með í smíðum um sögu landhelgismálsins árin 1961–1971. Þar kemur Óðinn við sögu, ekki síst vorið 1963 þegar skipverjar náðu Aberdeentogaranum Milwood á sitt vald, eftir eina æsilegustu eftirför í sögu Landhelgisgæslunnar,“ skrifar Guðni á Facebook, þar sem hann fer nánar yfir sögu Óðins.