Kaczynski er almennt talinn valdamesti maður Póllands og hefur mest að segja um stefnu flokksins og ríkisstjórnarinnar. Hann segir nú að hann hafi upphaflega hugsað sér að hætta fyrr í embætti aðstoðarforsætisráðherra, en að innrás Rússa í Úkraínu hafi fengið hann til að fresta því.
Varnarmálaráðherrann Mariusz Blaszczak mun taka við embætti aðstoðarforsætisráðherra, en embættið snýr að stórum hluta um að sinna öryggis- og varnarpólitík.
„Þetta er mjög eðlileg ákvörðun. Það stendur yfir stríð og hann er varnarmálaráðherrann. Svo með tilliti til stöðunnar sem við erum í þá er það kostur að vera með þessa tengingu,“ segir Kaczynski um skipun Blaszczak í embætti aðstoðarforsætisráðherra.
Kaczynski hefur stýrt íhaldsflokknum Lögum og réttlæti frá árinu 2003, en flokkurinn hefur verið við völd í landinu frá árinu 2015. Kaczynski sjálfur hefur á þeim tíma bæði setið í og utan sjálfrar ríkisstjórnarinnar.
Hinn 73 ára Kaczynski hefur átt sæti á pólska þinginu frá árinu 1997 og var forsætisráðherra Póllands á árunum 2006 til 2007. Tvíburabróðir hans, Lech Kaczynski, var forseti Póllands á árunum 2005 til dauðadags 2010, en hann lést í flugslysi í vesturhluta Rússlands.