„Það var gerð loftárás á Lysychansk og Sieveródonetsk varð fyrir stórskotaliðsárás,“ segir Serhiy Haidai, héraðsstjóri í Luhansk, á Telegram í dag.
Hann segir að Azot efnaverksmiðjan í Sieveródonetsk og þorpin Synetsky og Pavlograd hafi orðið fyrir barðinu á stórskotaliði Rússa.
Mikill fjöldi hermanna auk hundraða almennra borgara hafa leitað skjóls í Azot efnaverksmiðjunni frá því að Rússar hófu stórsókn á Sieveródonetsk. Íbúar borgarinnar voru um eitt hundrað þúsund fyrir innrás Rússa en nú eru aðeins um tíu þúsund eftir í borginni, að því er segir í frétt AP um málið.
Borgirnar tvær eru þær einu í Luhanskhéraði sem Rússar hafa ekki enn náð á sitt vald. Haidai sagði í fyrradag að til skoðunar væri að skipa hermönnum Úkraínu að hörfa frá Lysychansk til að koma í veg fyrir að þeir verði umkringdir her Rússa.
Rússar ráða einnig ríkjum í um helmingi Donetsk-héraðs, en saman mynda Donetsk og Luhansk Donbassvæðið, sem Rússar girnast mjög.