Verkefnastjórnin var skipuð af Menningar- og viðskiptaráðuneytinu en í stjórninni sátu Þórarinn Örn Þrándarson, Margrét Halldóra Hallgrímsdóttir, Skarphéðinn Berg Steinarsson, Björn Ingi Jónsson, Jóhannes Þór Skúlason, Jónas Guðmundsson, Hákon Ásgeirsson og Sunna Þórðardóttir. Þórarinn var skipaður formaður stjórnarinnar.
Stjórnin leggur til þess að hafin verði vinna við að kanna kosti og möguleika þess að innleiða lög um öryggi á fjölförnum ferðamannastöðum líkt og gilda um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Sterk rök hnígi til þess að efla varnir og öryggi með hliðsjón af núverandi öryggisþörf og tíðni slysa.
Þá verði í kjölfarið að hefja vinnu við smíði reglugerðar þar sem áhættusvæði eru nánar skilgreind og reglubundið áhættumat umræddra svæða gert skylt.
Nokkuð hefur verið um ferðamenn í sjálfheldu á ferðamannastöðum landsins, þá sérstaklega í Reynisfjöru. Tveir erlendir ferðamenn hafa látið lífið í fjörunni seinustu tólf mánuði. Unnið er að því að setja upp aðvörunarljós í fjörunni.