Á meðan að kórónuveirufaraldurinn stóð sem hæst og samkomubann var í gildi var nær slegist um hvern kött í Kattholti og flest búr tóm. Nú er staðan hins vegar önnur.
„Það er búið að vera ansi mikil aukning af kisum til okkar og eins og er þá er athvarfið alveg fullsetið af köttum. Þetta er náttúrulega breyting af því að í Covidinu ef það kom köttur inn þá var hann farinn bara nánast samdægurs og slegist um hann. Núna eru kettirnir lengur hjá okkur og það er svona ekki alveg jafn mikil eftirspurn,“ segir Jóhanna Evensen rekstrarstjóri Kattholts.

Þá á hún von á að köttunum í Kattholti fjölgi meira á næstunni þar sem komið hefur verið með sjö kettlingafullar læður í Kattholt það sem af er sumri. Í fyrrasumar var aðeins komið með tvær kettlingafullar læður yfir sumartímann.
„Það gæti tengst því líka að kettir sem fóru í Covid hafi ekki verið geldir að þeir séu þá að koma inn ófrískir núna.“
Jóhanna segir ekki aðeins fleiri ketti vera að koma í Kattholt heldur hafi auglýsingum á samfélagsmiðlum eftir heimilum fyrir ketti líka fjölgað. Hún segir ástæðurnar fyrir því að fólk losi sig við kettina geta verið margar.
„Það getur verið að það sé komið ofnæmi eða að fólk sé að flytja í annað húsnæði sem að leyfir ekki dýr eða að fólk jafnvel bara kannski útvegaði sér ekki pössun fyrir köttinn og er að fara í frí eða eitthvað slíkt.“
