„Ég er mjög spennt fyrir þessu. Mig hefur langað að spila sem atvinnumaður í Nýja-Sjálandi alveg síðan ég var lítil stelpa en það hefur aldrei verið lið til þess. Núna er það loksins komið,“ sagði Betsy Hassett í samtali við Vísi í dag.
„Ég þurfti að spila erlendis öll þessi ár þar sem það var ekki hægt að spila heima fyrr en núna. Mig hefur alltaf dreymt um að spila í A-deildinni en þetta er sennilega minn síðasti séns þar sem ég er að nálgast síðari enda ferilsins,“ bætti Betsy við en ásamt því að leika fyrir Stjörnuna og KR hér á Íslandi hefur hún meðal annars leikið með Manchester City í Englandi, Werder Bremen í Þýskalandi og Ajax í Hollandi, á 13 ára atvinnumannaferli.
Heimsmeistaramótið í fótbolta fer fram í Ástralíu og Nýja-Sjálandi og hefst mótið eftir tæpt ár, í júlí 2023. Betsy Hassett, sem verður 32 ára í næstu viku, er fjórða leikjahæsta landsliðskona Nýja-Sjálands frá upphafi með 132 landsleiki.
„Þetta er fullkomin tímasetning fyrir mig. Heimsmeistaramótið er á næsta ári og það verður frábært að spila bæði með og gegn samherjum mínum í landsliðinu og að vera í kringum aðdraganda stórviðburðarins, sem er heimsmeistaramótið á heimavelli,“ sagði Betsy með bros á vör.
„Það verður fínt að fá að búa í Nýja-Sjálandi aftur eftir svo mörg ár. Það á eftir að vera gott að vera í kringum fjölskylduna mína og vini sem ég þurfti að fórna fyrir fótboltaferilinn sem hefur tekið mig hringinn í kringum hnöttinn eftir að ég yfirgaf Nýja-Sjáland aðeins 18 ára gömul,“ sagði Betsy, sem mun þó snúa aftur til Stjörnunnar og leika með liðinu tímabilið 2023 eftir ævintýrið í Nýja-Sjálandi.