Fótbolti

Þýskt Ís­lendingalið gjald­þrota

Sindri Sverrisson skrifar
Lárus Guðmundsson varð þýskur bikarmeistari með Uerdingen, fyrir fjörutíu árum síðan.
Lárus Guðmundsson varð þýskur bikarmeistari með Uerdingen, fyrir fjörutíu árum síðan. Getty/Otto Werner

Þýska knattspyrnufélagið KFC Uerdingen, sem hét Bayer Uerdingen þegar það var í hópi bestu liða Þýskalands, hefur óskað eftir því að verða tekið til gjaldþrotaskipta.

Þetta kemur fram í þýskum miðlum, til að mynda í Augsburger Allgemeine sem segir að þetta sé í fimmta sinn í sögu félagsins sem það sé tekið til gjaldþrotaskipta og að margt bendi til að ekki verði gerðar fleiri tilraunir til að blása lífi í það.

Lárus Guðmundsson og Atli Eðvaldsson léku með liðinu á níunda áratug síðustu aldar þegar liðið náði sínum besta árangri. Þeir fóru meðal annars með liðinu í undanúrslit Evrópukeppni bikarhafa árið 1986, eftir eina ótrúlegustu endurkomu sögunnar í 8-liða úrslitum þar sem Uerdingen tapaði 2-0 á útivelli gegn Dynamo Dresden og lenti 3-1 undir í fyrri hálfleik í seinni leiknum, var því samtals 5-1 undir í einvíginu, en vann einvígið samtals 7-5.

Lárus var einnig í liðinu sem hafði orðið þýskur bikarmeistari árið áður, með 2-1 sigri gegn FC Bayern í úrslitaleik. Hann lék með Uerdingen árin 1984-87 og Atli á árunum 1985-88. Fjöldi Íslendinga lék einnig með liðinu í kringum aldamótin þegar það var ekki lengur í efstu deild.

Mikil óreiða hefur verið í fjármálum Uerdingen síðustu ár og samkvæmt frétt Augsburger Allgemeine má segja að félagið hafi verið á niðurleið frá því að lyfjarisinn Bayer Group sleit sig frá félaginu árið 1995, til að einbeita sér að Leverkusen.

Uerdingen hefur nú verið úrskurðað tap í öllum leikjum liðsins sem spilaði í vetur í einni af svæðisdeildum D-deildarinnar, Regionalliga West. Það hefur jafnframt í för með sér að nágrannar þeira í MSV Duisburg hafa þar með tryggt sér sigur í deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×