Í Fréttablaðinu í dag er fjallað um mál tveggja lækna sem grunaðir eru um stórfelld brot í starfi á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Annar þeirra er grunaður um að hafa valdið ótímabæru andláti níu sjúklinga.
Í Fréttablaðinu segir að dómkvaddir matsmenn hafi skilað matsgerð til Héraðsdóms Reykjaness sem Lögreglan á Suðurnesjum hafði farið fram á.
Matsmennirnir hafi talið að skráning læknismeðferða á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hafi ekki verið eins og á öðrum sjúkrastofnunum. Ekki hafi alltaf verið samræmi milli skráningar í tölvukerfum og þeirra meðferða sem í raun hafi verið veittar.
„Ég vænti þess að málin gegn mínum umbjóðanda verði nú felld niður í kjölfar niðurstöðu matsmannanna og að rannsókn verði hætt,“ hefur Fréttablaðið eftir Almari Möller, lögmanni annars læknanna.
Hvorki hefur náðst í Almar við vinnslu fréttarinnar né fengist staðfest að umbjóðandi hans sé Skúli Tómas Gunnlaugsson, læknirinn sem grunaður er um að hafa sett níu sjúklinga í ótímabæra líknarmeðferð. Hinn læknirinn hefur ekki verið nafngreindur í fjölmiðlum.