Guðrún Ásla keypti og tók við rekstri Café Riis um síðustu áramót af frændfólki sínu, þeim Báru Karlsdóttur og Kristjáni Jóhannssyni, sem ráku Café Riis frá 2005. Café Riis er í elsta húsinu á Hólmavík, byggt árið 1897 en var gert upp árið 1995 og því breytt í veitingastað.
Nýi eigandinn hefur fengið mjög góðar viðtökur og það er oft brjálað að gera á staðnum enda staðurinn rómaður fyrir frábærar pizzur svo eitthvað sé nefnt. Fjölskylda Guðrúnar og vinir og vandamenn hafa verið duglegir að hjálpa henni.
„Ég varð bara brjáluð fyrir þessum stað, ég hugsaði bara hvenær væri hægt að halda áfram að vera með þennan frábæra stað. Þetta er mjög mikilvægur staður fyrir samfélagið,“ segir Guðrún og bætir við.
„Jú, ég er svolítið ung fyrir þetta en þá er maður með meiri orku og maður er að læra mjög mikið mjög fljótt.“

Guðrún segist vera mjög opin fyrir nýjum hugmyndum með rekstur staðarins, breyting á matseðli, óvæntar uppákomu og fleira og fleira, hún sjái tækifæri í hverju horni.
En hvernig viðbrögð hefur hún fengið við staðnum eftir að hún tók við ?
„Allt mjög jákvætt, það er allavega það sem ég er búin að heyra.“
Fréttin hefur verið leiðrétt. Í upprunalegri útgáfu sagði að Guðrún væri arkitekt en hún hefur lokið BA-gráðu í arkitektúr.