Hjónin Karl B. Örvarsson og Halldóra Árnadóttir eru mörgum landsmönnum kunn enda hafa þau lengi rekið geysivinsælar skólabúðir að Reykjum í Hrútafirði. Fréttablaðið greindi frá því janúar samstarf milli hjónanna og Húnaþings vestra yrði ekki framlengt heldur myndi sveitarfélagið ganga í viðræður við UMFÍ um rekstur skólabúða að Reykjum.
Í dag greindi Fréttablaðið svo frá því að hjónin ynnu nú að lokafrágangi á Reykjum og að þau væru búin að finna sér nýjan rekstur. Karl segir í samtali við Fréttablaðið að hann fari fyrir félagi þeirra Halldóru, auk annarra, sem hefur samið um kaupleigu á Laugum í Sælingsdal.
Til að byrja með verður um leigu að ræða en þau njóti forkaupréttar sem gildi í tvö ár og geri þeim kleift að kaupa allar byggingar og land í kringum gamla skólann á Laugum. Umsamið kaupverð sé 270 milljónir króna en það er öllu lægra en ásett verð þorpsins, sem telur alls tíu hús.