Samkvæmt heimildum Vísis er verið að undirbúa kæru á hendur henni en kröfur sem fram eru settar eru vel á 6. milljón. Rekstrarkostnaður Dyngjunnar er með launatengdum gjöldum um 20 milljónir á ári og er því um hátt hlutfall rekstrartekna að ræða. Kvittanir sýni að innkaupin fóru oft ekki fram á vinnutíma og oftar en ekki í námunda við heimili forstöðukonunnar sem er búsett við Selfoss.
Lögmaður Dyngjunnar staðfestir þetta í samtali við Vísi en vill ekki láta hafa neitt eftir sér um málið. Það sé á afar viðkvæmu stigi. Það vill stjórnarformaður Dyngjunnar, Anna Margrét Kornelíusardóttir, ekki heldur gera en víst er að þeir sem að Dyngjunni standa óttast að málið allt kunni að ríða rekstrinum á slig.
Talið er samkvæmt bókhaldsgögnum að þetta misferli hafi staðið yfir árum saman en samkomulag var gert við forstöðukonuna að hún myndi láta af störfum í vor.
Tros fyrir vistmenn en hráskinka fyrir forstöðukonuna
Konan neitar sök, hafnar öllum kröfum og hefur sett fram gagnkröfur sem varða ógreidd laun og orlofsgreiðslur. Í sem skemmstu máli snúast ásakanir stjórnar Dyngjunnar um að forstöðukonan hafi notað debetkort Dyngjunnar til að fjármagna einkaneyslu sína.
Vísir hefur rætt við vistkonur sem segja að kosturinn í Dyngjunni hafi ávallt verið afar naumur, að sögn forstöðukonunnar vegna þess að engir peningar væru til að kaupa nema allra brýnustu nauðsynjar og þá það sem ódýrast er.
Hins vegar hafi komið á daginn, þegar bókhaldið var skoðað, eftir að grunur kom upp að debetkortið hafi verið misnotað, að keypt hafi verið og greitt fyrir allskyns munað svo sem hráskinka, konfekt og bláber í stórum stíl. Þá var einnig keyptur hundamatur fyrir debetekort Dyngjunnar og fleira sem vistfólk fullyrðir að hafi aldrei komið inn fyrir dyr heimilisins.
Fiskurinn góði reynist ekki gjöf
Einnig eru tiltekin í bókhaldi kaup á Nespresso-kaffivél, iPad- og iPhone-tækjum sem aldrei hafa komið inn á Dyngjuna, hvað þá að þau færu í hendur vistkvenna.
Í bókahaldi eru áberandi reikningar til söluskrifstofu sem höndlar með fisk. Konur á heimilinu segja að í það hafi verið látið skína að fiskurinn væri gjöf til heimilisins frá velgjörðarmanni; næringarríkur matur sem konurnar fengju að njóta vegna þess að eiginmaður forstöðukonunnar væri að höndla með fiskinn.
Þakklætið fyrir fiskinn, þá góðu gjöf, byggi þó á sandi, því bókhaldsgögn leiði í ljós að fyrir fiskinn var greitt og vel yfir kílóverði sambærilegs fisks ef verslað hefði verið í Bónus. Kaup á þeim fiski má samkvæmt bókhaldsgögnum rekja allt aftur til ársins 2016.