Aðspurð um stemninguna í íslenska hópnum eftir tapið segir Áslaug: „Bara mjög þungt og dapurt. Þetta verður sárt í kvöld en svo fer maður bara að einbeita sér að næsta leik. Við ætlum bara að klára það og fara beint eftir þann leik á HM,“
Áslaug segir þá Ísland hafa mætt illa til leiks. Íslenska liðið var í töluverðum vandræðum og Holland óð í færum.
„Mér fannst vera smá skjálfti í okkur. Við vissum í rauninni bara hvað var undir þannig að við spiluðum í rauninni aðeins öðruvísi leik heldur en við erum vanar. Við vorum heldur þéttar fyrir og vorum bara í lágvörn,“
Hollandi sótti gegndarlaust upp hægra megin, sérstaklega í fyrri hálfleiknum, sem olli Áslaugu, sem var í vinstri bakverðinum, töluverðum vandræðum.
„Sjálf var ég smá týnd en það var mikill talandi í hópnum sem hjálpaði mér, bæði af bekknum og í liðinu sjálfu. Það hjálpaði mér aðeins,“ segir Áslaug.
„Í seinni hálfleik kom aðeins betri taktur í okkur fannst mér. Auðvitað vorum við ennþá eiginlega ellefu fyrir aftan boltann en við vissum bara að það væri það sem við þyrftum að gera,“ segir hún jafnframt.
Líkt og Áslaug kemur inn á var íslenska liðið betra varnarlega í síðari hálfleiknum þar sem færi þeirra hollensku voru færri. Það stefndi allt í jafnteflið þangað til markið kom í lokin.
„Þetta var að falla með okkur en ætli við höfum ekki bara hafa haldið að þetta væri búið of snemma. Því miður.“
Þó er enginn uppgjafartónn í henni. Umspilið er fram undan og draumurinn um HM lifir.
„Við erum ekkert hættar. Við ætlum okkur að fara á HM,“ sagði Áslaug Munda að lokum.