Rafíþróttir

Leikmannaspá Ljósleiðaradeildarinnar: Fengu sæti Kórdrengja og stefna á úrslitakeppni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Viðstöðu er spáð sjöunda sæti Ljósleiðaradeildarinnar.
Viðstöðu er spáð sjöunda sæti Ljósleiðaradeildarinnar.

Leikmenn Ljósleiðaradeildarinnar í CS:GO spá Viðstöðu sjöunda sæti deildarinnar á komadi tímabili.

Ljósleiðaradeildin í CS:GO hefst með pompi og prakt næstkomandi þriðjudag og af því tilefni mun Vísir birta spá sem leikmenn deildarinnar settu saman fyrir tímabilið sem framundar er.

Viðstöðu er spáð sjöunda sæti deildarinnar, en liðið tók sæti Kórdrengja í deildinni fyrir þetta tímabil.

Lið Viðstöðu mætir með nokkuð breyttan leikmannahóp til leiks í ár og er liðið hálfgert óskrifað blað. Liðið er samansett af sex leikmönnum sem allir eru á aldrinum 24 til 29 ára og ef spá leikmanna deildarinnar gengur eftir nær liðið inn í úrslitakeppnina á sínu fyrsta tímabili í Ljósleiðaradeildinni.

Lið Viðstöðu skipa þeir blazter (Aron Mímir Gylfason), xeny (Þorlákur Ari Ágústsson), mozar7 (Arnar Breki Elfar), klassy (Eðvald Atli Sigurvaldsson), allee** (Alfreð Leó Svansson) og Tony (Antonio Kristófer Salvador)

Fyrsti leikur Viðstöðu er gegn Ármanni fimmtudaginn 15. september klukkan 20:30. Ármann hafnaði í fjórða sæti Ljósleiðaradeildarinnar á seinasta tímabili og því verður fróðlegt að sjá hvernig þetta nýja lið mátar sig við það.

Ljósleiðaradeildin hefst næstkomandi þriðjudag, 13. september, en útsending hefst klukkan 19:15 og verða tveir leikir spilarðir, kl 19:30 og 20:30. Á fimmtudögum verða svo þrír leikir spilaðir til að loka umferðinni og hefst útsending þá líka kl 19:15, en leiktímar eru 19:30, 20:30 og 21:30. Beinar útsendingar alltaf á Stöð 2 eSport og Twitch-rás RÍSÍ.


Tengdar fréttir






×