Fjármálaráðherra lýsti því í morgun að á síðasta áratugi hafi meðalgjöld sem íslenskir bifreiðaeigendur greiða til ríkisins lækkað jafnt og þétt. Það eru hinir álögulausu rafbílar sem hafa verið að draga meðaltalið niður og nú þarf að rífa það aftur upp að mati stjórnvalda. Og þar sem svo mikill árangur hefur þegar náðst í að rafvæða bílaflotann, er nú að mati ráðherra tímabært að jafna metin.

„Þetta er bara gamaldags skattahækkun,“ segir Runólfur.
„Það er bara verið að leggja nýjar álögur á fólk í gegnum ökutækin og bifreiðanotkun. Þannig að þetta verður bara ákveðinn farartálmi og ég held að menn hafi ekki reiknað til enda hvaða áhrif þetta hefur. Þannig að ég held því miður að þessar hugmyndir séu bara illa ígrundaðar og þær bara standast illa skoðun.“
Stjórnvöld sjá fyrir sér að geta aflað tæpra fimm milljarða króna á næsta ári með því að hækka þessi gjöld og í sumum tilvikum segir Runólfur að vörugjaldið geti hækkað um 15%. Ofan á það koma væntanlegir vegtollar.
„Þannig að þessar hækkanir sem Bjarni boðar koma ofan á þeim hækkunum sem boðaðar eru í gegnum vegtolla. Ég veit ekki hvort menn séu að gera þetta með réttu hugarfari að vera að fara inn í til dæmis kjarasamninga. Svona hækkanir bitna verst á þeim sem minna hafa á milli handanna,“ segir Runólfur.
