Þrátt fyrir að tímabilinu sé ekki lokið í Bestu-deildinni var ákveðið að Reynir og Lárus ættu að setja saman sín úrvalslið úr leikmönnum deildarinnar. Farmundan er úrslitakeppni Bestu-deildarinnar og Guðmundur Benediktsson, stjórnandi þáttarins, fullvissaði áhorfendur um það að þegar henni væri lokið yrðu úrvalslið hennar sett saman.
Reynir Leósson kynnti liðið sitt fyrst til leiks. Eðlilega komu flestir leikmenn liðsins úr efstu liðum deildarinnar, en topplið Breiðabliks á fjóra fulltrúa og Íslandsmeistarar Víkings eiga þrjá. Þá eiga KA-menn, sem sitja í þriðja sæti deildarinnar, tvo fulltrúa í liðinu. Að lokum er Valsarinn Frederik Schram í markinu og Framarinn Guðmundur Magnússon í fremstu víglínu.
Þá vakti kannski athygli einhverra að Kristall Máni Ingason, fyrrverandi leikmaður Víkings, komst ekki í liðið, en Reynir hafði þó skýringar á því.
„Maður átti í smá vandræðum með þetta, en þetta er liðið sem ég setti saman. Af hverju er Kristall ekki þarna? Ég fór í fýlu út í hann af því að hann fór,“ sagði Reynir léttur, en Kristall Máni gekk í raðir norska stórliðsins Rosenborg á miðju tímabili.

Úrvalslið Reynis
Markvörður:
Frederik Schram (Valur)
Vörn:
Logi Tómasson (Víkingur)
Damir Muminovic (Breiðablik)
Oliver Ekroth (Víkingur)
Höskuldur Gunnlaugsson (Breiðablik)
Miðja:
Pablo Punyed (Víkingur)
Rodrigo Gomes Mateo (KA)
Ísak Snær Þorvaldsson (Breiðablik)
Sókn:
Nökkvi Þeyr Þórisson (KA)
Guðmundur Magnússon (Fram)
Jason Daði Svanþórsson (Breiðablik)
Næst var komið að Lárusi, en hann valdi keimlíkt lið og kollegi sinn. Hann gerði þó tvær breytingar á vörninni og þá var Lárus ekki í neinni fýlu út í Kristal Mána og gaf honum sæti í liðinu. Reyndar benti Guðmundur á þá staðreynd að Lárus hafi valið þrjá leikmenn í sitt lið sem væru farnir úr deildinni.
„Er þetta ekki tilgangurinn?“ spurði Lárus. „Þeir eru að spila hérna á Íslandi til þess að komast út. Þeir komust út af því að þeir stóðu sig svo vel og þar með eru þeir í liðinu hjá mér.“

Úrvalslið Lárusar
Markvörður:
Frederik Schram (Valur)
Vörn:
Ívar Örn Árnason (KA)
Damir Muminovic (Breiðablik)
Oliver Ekroth (Víkingur)
Óli Valur Ómarsson (Stjarnan)
Miðja:
Pablo Punyed (Víkingur)
Rodrigo Gomes Mateo (KA)
Kristall Máni Ingason (Víkingur)
Sókn:
Nökkvi Þeyr Þórisson (KA)
Guðmundur Magnússon (Fram)
Ísak Snær Þorvaldsson (Breiðablik)