Raforkufyrirtækið Energoatom sem rekur kjarnorkuverið, sem er það næststærsta í Úkraínu, segir að flugskeytið hafi lent um þrjú hundruð metra frá verinu, að sögn AP-fréttastofunnar. Á upptöku úr öryggismyndavélum sem úkraínska varnarmálaráðuneytið birti mátti sjá tvo eldhnetti í myrkrinu skömmu eftir miðnætti.
Fyrirtækið og ráðuneytið sökuðu Rússa um „kjarnorkuhryðjuverkastarfsemi“. Krafturinn í sprengingunni hafi sprengt fleiri en hundrað rúður í gluggum og tímabundið stöðvað starfsemi vatnsaflsvirkjunar í grennd við kjarnorkuverið.
Hvorki rússnesk stjórnvöld né Alþjóðakjarnorkumálastofnunin hafa brugðist við ásökunum Úkraínumanna um árásina. Aðeins nokkrir dagar eru liðnir frá því að Vladímír Pútín Rússlandsforseti hótaði að beina vopnum sínum enn frekar að innviðum Úkraínu eftir niðurlægingu sem hersveitir hans hafa sætt á vígvellinum upp á síðkastið.
Ukraine's state nuclear company said Russian troops struck the Pivdennoukrainsk nuclear power plant in the southern Mykolaiv region. Ukrainian President Volodymyr Zelenskiy posted CCTV footage he said showed the moment of explosion https://t.co/N8PCfGlQgb pic.twitter.com/w9t220XjJm
— Reuters (@Reuters) September 19, 2022
Ástsælasta söngkona Rússlands fordæmir hernaðinn
Sú niðurlæging virðist halda áfram. Úkraínuher segist nú hafa náð aftur á sitt vald austurbakka árinnar Oskil sem hefur verið framlína átakanna við rússneska hermenn í norðaustanverðu landinu. Úkraínumenn hafa nú náð nær öllu Kharkiv-héraði og segjast stefna á að frelsa Luhansk úr höndum innrásarhersins.
Pútín var greitt annað þungt högg um helgina þegar Alla Pugatsjeva, ein ástsælasta söngkona Rússlands til áratuga, gagnrýndi innrásina harðlega á samfélagsmiðlum. Kallaði hún markmið stjórnar Pútín í Úkraínu „tálsýn“ sem gerði Rússland að úrhrökum á alþjóðavettvangi og líf landsmanna afar erfitt, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.
Rússnesk stjórnvöld lýstu Maxim Galkin, eiginmann Pugatsjevu sem sjálfur er þekktur grínisti og söngvari, útsendara erlendra ríkja vegna andstöðu hans við hernaðinn á föstudag. Skoraði Pugatsjeva á stjórnvöld að gera slíkt við sama við hana. Kremlverjar hafa beitt merkimiðanum „útsendari erlends ríki“ á ýmis félagasamtök og fréttamiðla sem eru þeim erfiður ljár í þúfu í gegnum tíðina.