Kattaeigendum í Norðurþingi brá heldur betur í brún þegar leyfisgjald til hunda- og kattahalds var hækkað í ár en gjaldið fór úr því að vera rúmlega 3.900 krónur árið 2021 yfir í 14.719 krónur árið 2022 á hvern kött.
Guðný María Waage, formaður Félags hundaeigenda á Húsavík, fékk sjálf reikning upp á hátt í þrjátíu þúsund krónur fyrir kettina sína tvo, Freddie og Vin, og ofan á það bættist gjald fyrir hundana hennar, alls um sextíu þúsund krónur. Hún segir þetta óskiljanlega hækkun.

„Ef að fólk var ekki að skrá kettina sína fyrir 3.900 krónur í fyrra þá er enginn að fara að borga þessar 14.719 krónur. Það var einn sem að borgaði það óvart og hann sér eftir því,“ segir Guðný en aðeins sextán kettir séu skráðir á Húsavík, þó þeir séu í raun mun fleiri.
Sex manns skrifuðu undir undirskriftarlista sem afhentur var Norðurþingi í dag og óskuðu eftir að afskrá ketti sína vegna hækkunarinnar.
Lausaganga katta er bönnuð á Húsavík og eiga kattaeigendur því þegar undir högg að sækja að sögn Guðnýjar. „Það er mjög mikið ósætti og það er mikið dýrahatur sem fólk finnur fyrir, það er hrætt um dýrið sitt að, það verði bara skotið á færi ef það sleppur út,“ segir hún.
Eiga ekki alltaf rétt á endurgreiðslu
Sjálf flutti Guðný til Húsavíkur fyrir fimm árum frá Hafnarfirði og þurfti þá að venja fjórtán ára útikött sinn, Vin, á að vera inni.
„Ég er búin að heyra í heilbrigðiseftirlitinu í Hafnarfirði, Garðabæ og Kópavogi og þeim finnst þetta gjald líka mjög fáránlegt, að það sé verið að krefjast þessarar upphæðar. Því það kostar ekkert að eiga kött í Hafnarfirði en svo flyt ég til Húsavíkur og þá allt í einu kostar að eiga kött. Og hann má ekki einu sinni fara út,“ segir Guðný.

Samkvæmt upplýsingum á vef Norðurþings er raunkostnaður á bak við leyfisgjaldið 9.450 krónur fyrir ormahreinsun, 769 krónur fyrir ábyrgðartryggingu katta og 4.500 krónur fyrir eftirlit. Þá kemur fram að hægt sé að fá endurgreiðslu að hluta ef sýnt er fram á að dýrið sé ormahreinsað og bólusett.
Guðný bendir þó á að það sé í raun mun ódýrara hjá dýralækni en kveðið er á um í gjaldinu. Þá hafi annar köttur hennar nýverið fengið ormalyf og samkvæmt dýralækni eigi hann ekki að koma aftur fyrr en eftir tvö ár. Hún fengi því ekki endurgreiðslu á næsta ári.
Hvað dýralæknaþjónustu á Húsavík varðar almennt sé henni einnig verulega ábótavant.
„Það sækja allir þjónustuna á Akureyri. Það þorir enginn að fara til dýralæknisins sem er hér, sem er eiginlega sérhæfður í hestum og þess háttar, það finnst betri persónuleg þjónusta fyrir heimilisdýr á Akureyri og fólk sækir þangað,“ segir Guðný.

Væru tilbúin til að borga gjaldið ef þjónustan yrði bætt
Hún hafi ítrekað haft samband við Norðurþing vegna málsins og fengið góð viðbrögð hjá stjórnmálamönnum en lítið um svör frá bænum. Ýmislegt þurfi að bæta til að gjaldið sé réttlætanlegt.
„Ég væri til í að fá meiri þjónustu, ég vil að þeir fái dýralækni annars staðar af, eins og að fá dýralækni frá Akureyri hingað tvisvar á ári, og bjóða upp á bólusetningu og ormahreinsun þannig við borgum bara þetta gjald og við mætum á staðinn,“ segir Guðný og bætir við að efla þurfi sömuleiðis eftirlit, sem sé varla til staðar eins og staðan er í dag.
Umræðan um að banna lausagöngu katta hefur komið upp víðar, til að mynda á Akureyri þar sem til stóð að banna lausagöngu alfarið árið 2025. Eftir mikla gagnrýni var því breytt yfir í bann að næturlagi. Þá skoðar Fjallabyggð sambærilegar aðgerðir.
Guðný segir sjálfsagt að reglur séu til staðar en koma þurfi til móts við kattaeigendur.
„Mér finnst það allt í lagi viðhorf af því að þú átt bara að bera ábyrgð á þínu dýri, ekki bara fá þér kött og pæla ekki meira í því. Að hafa metnað í uppeldinu, það er kannski það sem okkur Íslendingum vantar, að hafa smá metnað í þessu,“ segir hún.