Myndin sem sýnd verður að þessu sinni er Talladega Nights: The Ballad of Ricky Bobby. Bílabíó RIFF er gestum að kostnaðarlausu svo fyrstir koma - fyrstir fá.
„Bílabíó RIFF eru vel sóttir viðburðir og gefa þeim færi að sækja kvikmyndasýningar á stórum skjá sem ekki geta nýtt sér þjónustu hefðbundinna kvikmyndahúsa. Bílabíó eru skemmtileg tilbreyting við hefðbundnar kvikmyndasýningar og skapa hliðstæðu við menningarheim Bandaríkjanna sem gerði bílabíósýningar ódauðlegar á síðustu öld,“ segir í tilkynningu frá RIFF.

Handritið að Talladega Nightser skrifað af Adam McKay og Will Ferrell og kom myndin út árið 2006. Myndin fjallar um Ricky Bobby, sem fæðist í bíl, ekið á ofsahraða. Ricky hefur þess vegna gríðarlega þörf til að vera á mikilli ferð og sækist eftir því að komast að í NASCAR kappakstrinum. Söguhetjan lendir í alls kyns mótlæti, í anda Ferrell mynda, og tekst á við ólík og einkennileg vandamál með kómískum hætti.
Myndin er hlaðin úrvali þekktra gamanleikara. Auk Ferrell fara John C. Reilly, Sacha Baron Cohen, Leslie Bibb, og Amy Adams með hlutverk í myndinni. NASCAR bílstjórarnir Jamie McMurray og Dale Earnhardt Jr. fara einnig með aukahlutverk í myndinni.