Bingó var starfrækt í Vinabæ frá árinu 1990 eða í 32 ár en síðasta bingóið í Vinabæ fór fram þann 28. Febrúar síðastliðinn. Mikil óánægja ríkti meðal bingóspilara og starfsmanna Vinabæjar með lokunina.
Feðgarnir í Lumex, Helgi Kristinn Eiríksson og Ingi Már Helgason keyptu húsnæðið sem um ræðir að Skipholti 33. Þegar feðgarnir voru spurðir fyrr á árinu hvað tæki við í húsnæðinu virtust borgarbúar mega búast við nýjum samkomustað.
„Ég held að með réttu samstarfsaðilunum og réttum hópi einstaklinga, getum við gert Tónabæ, Tónabíó, Vinabæ, að skemmtilegum samkomustað. Það eru þá meiri listviðburðir, tónleikar, og uppistand eða hvað sem kemur til,“ sagði Ingi Már Helgason.
Nú hefur RVK Bruggfélag sent frá sér tilkynningu á Facebook þar sem kemur fram að framkvæmdir þeirra í húsnæðinu séu í fullum gangi.
„Á næstu vikum færum við okkur upp í anddyri Tónabíós þar sem síðast var Vinabær, með stærri og veglegri bruggstofu og bjórbúð með ferskum nýjum dósum í alfaraleið,“ segir í tilkynningunni.
Bruggfélagið segir Tónabíó hafa verið goðsagnakennt en þeir muni leggja sig fram við endurvekja „forna frægð“ hússins og gera að flottum samkomustað. Bjórinn á staðnum verði bæði á krana og í dósum.
Bruggstofa bruggfélagsins á Snorrabraut muni loka nú á föstudag.