Mest af sjó er við Norðurgötu, Gránufélagsgötu og Eiðsvallagötu.
„Götur eru hérna á floti, það er að flæða inn í hús og sums staðar alveg hnéhátt vatn. Vonandi fer þetta skánandi. Við er um að ná að veita vatni aðeins í burtu, við erum búin að taka í sundur gangstétt til þess að drena vatnið út í sjó, af því að niðurföllin hafa ekki undan,“ segir varðstjóri hjá slökkviliði Akureyrar.
„Það er erfitt að skrúfa fyrir þetta, það er ekki hlaupið að því,“ bætir hann við.

Hann segir að búið sé að moka sandi í poka og hlaða fyrir hurðar og húsveggi, til að lágmarka það vatn sem inn geti flætt í húsin. Ekki hafa borist tilkynningar um að flætt hafi inn í íbúðarhús.
„Við erum með allar okkar dælur úti þannig að það sé að setja allt í gang um leið og við erum farin að ráða við það; um leið og Atlantshafið hættir að ýta sér inn,“ bætir hann við.
Fylgst er með nýjustu vendingum í veðri hér í vaktinni á Vísi.