Ekki virðist sem Pútín muni ávarpa þjóðina á morgun en RIA fréttaveitan, sem er í eigu rússneska ríkisins, hefur eftir talsmanni hans að forsetinn muni halda ræðu á þinginu og halda ávarp seinna.
Héruðin fjögur eru Luhansk, Donetsk, Saporisjía og Kherson. Leppstjórar Rússa í þeim héruðum fóru til Moskvu í gær og báðu Pútín um að þau yrðu innlimuð. Það er í kjölfar þess að Rússar segjast hafa haldið atkvæðagreiðslu meðal íbúa héraðanna.

Rússar segja að nánast allir íbúar hafi samþykkt innlimun. Þessi meinta atkvæðagreiðsla og væntanleg innlimun Rússlands á héruðunum er brot á alþjóðalögum og mun líklegast hafa lítið gildi fyrir aðra en Rússa.
Aðgerðunum er í raun ætlað að gefa yfirlýstri innlimun lögmæti varðandi rússnesk lög og ákvæði stjórnarskrár Rússlands. Innlimun héraðanna er einnig mikil stigmögnun. Samkvæmt rússneskum lögum og breytingum sem gerðar voru á stjórnarskrá landsins árið 2020 er ríkisstjórn Rússlands óheimilt að gefa rússneskt landsvæði frá sér.
Rússneskum lögum samkvæmt er útlit fyrir að héruðin muni tilheyra Rússlandi á morgun. Þetta grefur verulega undan mögulegu friðarsamkomulagi milli Úkraínumanna og Rússa í framtíðinni.
Sjá einnig: Leppstjórar biðja Pútín um innlimun
Með þessu vilja Rússar, sem eru á hælunum víðast hvar í Úkraínu, saka Úkraínumenn um að gera árásir á Rússland, öfugt við það sem raunverulega er að gerast, að Úkraínumenn séu að verjast Rússum í Úkraínu. Innlimun gæti einnig gert Rússum kleift að kveðja úkraínska menn í rússneska herinn og reyna að láta þá berjast gegn Úkraínumönnum.
Ráðamenn í Rússlandi, og þar á meðal Pútín, hafa hótað notkun kjarnorkuvopna.
Úkraínumenn og bakhjarlar þeirra hafa sagt að innlimun Rússlands muni engu breyta fyrir þá. Úkraínumenn segjast ætla sér að frelsa alla Úkraínu og þar á meðal Krímskaga, sem Rússar innlimuðu árið 2014.