„Pútín hefur skikkað hundruð þúsunda í herinn, farið óábyrgum orðum um kjarnorkuvopn og núna innlimað fleiri héruð Úkraínu ólöglega,“ sagði Stoltenberg á blaðamannafundi.
„Þetta sýnir ekki styrk. Þetta sýnir veikleika,“ sagði Stoltenberg og staðhæfði hann að NATO og Vesturlönd myndu ekki láta kúga sig með kjarnorkuvopnum.
Sjá einnig: Bölsótaðist út í Vesturlönd
„Rússar verða að skilja að enginn getur unnið kjarnorkustyrjöld og slík styrjöld má ekki eiga sér stað,“ sagði Stoltenberg. Hann sagði að ef Rússar notuðu kjarnorkuvopn í Úkraínu myndi það hafa alvarlegar afleiðingar.
Hann bætti við á blaðamannafundinum að enn væru engar vísbendingar um að Rússar ætluðu sér að nota kjarnorkuvopn.
[LIVE] Watch #NATO Secretary General @jensstoltenberg brief the media at NATO HQ. https://t.co/YvtsyMv0g7
— Oana Lungescu (@NATOpress) September 30, 2022
Stoltenberg sagði fyrr í vikunni að innlimunin myndi ekki fela í sér að ríki NATO myndu láta af stuðningi við Úkraínu. Það ítrekaði hann á blaðamannafundinum í dag og sagði Úkraínumenn eiga rétt á því að frelsa allt sitt landsvæði.
Hann sagði bandalagið tilbúið til að standa lengi við bakið á Úkraínumönnum.
Sjá einnig: „Þetta land er Úkraína“
Varðandi umsókn Úkraínu í NATO sagði Stoltenberg að dyrnar stæðu Úkraínumönnum opnar. Ákvarðanir um framtíð úkraínsku þjóðarinnar væri í þeirra eigin höndum en umsóknin þyrfti þó samþykki allra þrjátíu aðildarríkja bandalagsins.
Áherslan væri núna á það að styðja Úkraínumenn og hjálpa þeim að verja sig gegn Rússum.
Stoltenberg sagði þó einnig að fljótlegasta leiðin til að binda enda á átökin í Úkraínu væri ef Rússar hættu innrás þeirra.
„Ef Rússar hætta að berjast, verður friður. Ef Úkraínumenn hætta að berjast, hættir Úkraína að vera til sem fullvalda ríki,“ sagði Stoltenberg.