Rússar hafa átt verulega undir högg að sækja í innrás sinni í Úkraínu undanfarnar vikur. Þeir töpuðu Lyman, hernaðarlega mikilvægri borg í Donetsk-héraði í austanverðu landinu um helgina, rétt eftir að Vladímír Pútín Rússlandsforseti lýsti því yfir að hann hefði innlimað héraðið auk þriggja annarra hernumdra héraða.
Eitt þeirra er Kherson-hérað í Suður-Úkraínu. Rússneska varnarmálaráðuneytið og leppstjórar Rússa þar staðfesta að skriðdrekar Úkraínumanna hafi brotist í gegnum varnir þeirra við Dnjepr-ána norðaustur af Kherson-borg í dag. Harðir bardagar geisi nú þar, um þrjátíu kílómetra sunnar en víglínan var þangað til í dag.
Reuters-fréttastofan segir að framrásin í suðrinu sé sú veigamesta hjá úkraínska hernum frá því að stríðið hófst í febrúar. Úkraínskir hermenn frelsuðu nokkur þorp úr höndum Rússa meðfram ánni. Volodýmýr Selenskíj, forseti Úkraínu, sagði að þorp hefðu verið frelsuð í nokkrum héruðum.
Sókn Úkraínumanna er sögð beinast að flutningsleiðum fyrir um 25.000 rússneska hermenn á vesturbakka Dnjepr.
Í Luhansk segir rússneska leppstjórnin að úkraínskir hermenn hafi sótt fram nokkra kílómetra. Breska ríkisútvarpið BBC segir að þeir stefnu að bæjunum Kremenna og Svatove sem Rússar hafa á valdi sínu.
Vita ekki fyllilega hvaða landsvæði verða innlimuð
Rússar héldu áfram ólögmætri tilraun sinni til þess að innlima úkraínsku héruðin fjögur þegar Dúman, neðri deild rússneska þingsins, samþykkti aðgerðina í dag. Efri deild þingsins gerir slíkt það sama á morgun. AP-fréttastofan segir að innlimanirnir séu keyrðar í gegn í svo miklum flýti að rússneskir embættismenn hafi átt erfitt með að ná utan um hvaða svæði stendur nákvæmlega til að innlima.
Dmitrí Peskov, talsmaður Kremlar, segir að Donetsk og Luhansk gangi í rússneska sambandsríkið með sömu héraðsmörk og giltu áður en átök brutust þar út árið 2014. Enn hafi ekki verið ákveðið hver landamæri Kherson og Saporisjía verða.