Seðlabankinn tilkynnti um hækkun stýrivaxta um fjórðung úr prósentustigi í morgun. Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, sagði að bankinn gæfi nú boltann á aðra, vinnumarkaðinn, atvinnulífið og ríkisstjórnina, í baráttu við verðbólgu sem nemur nú um níu prósentum.
Þegar áskorun seðlabankastjóra var borin undir Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, hagfræðing BSRB, í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld áréttaði hún að það væri á ábyrgð bankans og ríkisstjórna að sjá um efnahagsstjórnina en verkalýðshreyfingarinnar að tryggja mannsæmandi kjör í landinu.
Hreyfingin horfi til tæplega 40.000 heimila sem áttu erfitt með að ná endum saman í fyrra og þola nú kaupmáttarrýrnun og kvennastétta þar sem laun endurspegla ekki verðmæti starfanna.
„Það er óhjákvæmilegt að krefjast leiðréttingar fyrir þessa hópa,“ sagði Sigríður Ingibjörg um hvort að launakröfum yrði stillt í hóf í komandi kjarasamningaviðræðum.
Hvað kröfurnar varðaði liti verkalýðshreyfingin á samspil launa við þætti frá stjórnvöldum. Því sagði hagfræðingurinn fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar mikil vonbrigði. Í því væru lagðar til hækkanir almennra gjalda sem bitni fyrst og fremst á launafólki en ónæg framlög til barnabóta og húsnæðismála og fleiri þátta.
„Það eru þessi atriði sem munu hafa áhrif á launakröfur okkar þegar að kjarsamningaborðinu kemur,“ sagði Sigríður Ingibjörg.