Það byrjaði að snjóa í nótt á Siglufirði og er slabb á flestum götum bæjarins. Bæjarstjóri Fjallabyggðar, Sigríður Ingvarsdóttir, segir í samtali við fréttastofu að þrátt fyrir að fólki finnist snjórinn vera mættur aðeins of snemma sé hann dásamlegur, sem og veturinn allur.

„Eins og þú veist er veður bara hugarástand. Þannig það er hægt að brosa í gegnum tárin. Maður sér alltaf eitthvað bjart við allar árstíðir. Þetta er ávísun á góðan skíðavetur hjá okkur,“ segir Sigríður.
Það hefur einnig snjóað á Ólafsfirði en ekki jafn mikið. Í tilkynningu á vef Veðurstofunnar í morgun segir að búast megi við snjókomu eða slyddu í fjöllum Norðurlands í allan dag.
