Í nýrri þáttaröð Um land allt á Stöð 2 er Reyðarfjörður meðal þeirra samfélaga sem við kynnumst. Bærinn dregur nafn sitt af samnefndum firði, þeim lengsta á Austfjörðum, en þorpið hét upphaflega Búðareyri.

Við Búðará, í hjarta byggðarinnar, hittum við þá Þórodd Helgason, glímuþjálfara og fræðslustjóra Fjarðabyggðar, Guðjón Magnússon, formann glímuráðs, og Ásmund Ásmundsson, glímukóng Íslands, og leitum skýringa á því hversvegna Reyðfirðingar séu svona öflugir í glímu.
Umsjónarmaður þáttarins, sem sjálfur þykist vera nokkuð stór og stæðilegur, stenst ekki mátið þarna á bakka Búðarár og skorar Ásmund glímukóng á hólm í von um að ná að hrifsa af honum Grettisbeltið og hyggst beita hinu þekkta glímubragði, sniðglímu á lofti.

Í kynningarstiklu má einnig sjá myndbrot úr fleiri þáttum en, eins og nafn sjónvarpsseríunnar vísar til, eru byggðir heimsóttar um land allt.
Í jaðri höfuðborgarsvæðisins kynnumst við áhugaverðu mannlífi og leyndum perlum umhverfis Elliðavatn og upp með Hólmsá og sjáum forvitnilegar hliðar á Rauðhólum, Gvendarbrunnum og Heiðmörk.
Í austanverðum Skagafirði er rótgróin sveitabyggð heimsótt í Fljótum. Þar hafa bændur staðið í búháttabreytingum samhliða uppbyggingu ferðaþjónustu í sveitinni þar sem hæst ber lúxushótelið að Deplum.
Hólar í Hjaltadal voru um aldir höfuðstaður Norðurlands og helsta valda- og menntasetur landsins ásamt Skálholti. Við kynnumst sögu biskupsstólsins og skólahalds en einnig því starfi sem þar fer fram í dag.
Fyrsti þáttur haustsins er á dagskrá Stöðvar 2 mánudagskvöldið 17. október. Hér má sjá kynningarstiklu þáttaraðarinnar Um land allt: