Sprengingar skóku Kænugarð í morgun, í fyrstu eldflaugaárás Rússa á höfuðborgina síðan í júní. Sprengjur lentu í hjarta borgarinnar, meðal annars á stórum gatnamót nærri Shevchenko-garði, þegar margir voru á ferð. Að minnsta kosti 11 létust og á sjöunda tug særðust í eldflaugaárásunum.
Joe Biden Bandaríkjaforseti ræddi við Volodímír Selenskí forseta Úkraínu vegna árásanna og segir Bandaríkjamenn ætla að aðstoða Úkraínu við loftvarnir.
Vladímír Pútín, forseti Rússlands segir árásir dagsins hafa verið svar Rússa við árásinni á Kertsj-brúna. Brúin er sögð táknmynd hernáms Rússa á Krímskaga en hún tengir skagann við meginland Rússlands og er mikilvæg birgðaflutningaleið fyrir Rússa. Úkraínumenn hafa ekki lýst yfir ábyrgð á sprengingunni.
Dmytro Kuleba utanríkisráðherra Úkraínu sagði við CNN í dag að hann vissi ekki hver stæði á bak við sprenginguna á Kertsj: „Við munum ekki láta deigan síga. Við munum halda áfram að frelsa landsvæði í Úkraínu hvað sem [Pútín] gerir. Þetta er stríð um sjálfstæði og tilverurétt Úkraínumanna. Þetta er stríð fyrir grundvallarmannréttindum og alþjóðlegum lýðræðisreglum. Pútín má gefa í, hann má reyna, en við munum halda áfram að berjast. Við munum sigra,“ sagði Kuleba.