Endurupptökudómur synjaði í síðasta mánuði beiðni Erlu Bolladóttur um endurupptöku á dómi frá árinu 1980 fyrir rangar sakargiftir í tengslum við Guðmundar- og Geirfinnsmálin og lauk þar með baráttu hennar fyrir dómstólum hér á landi.
„Ég hafði þá trú að menn ætluðu að vanda sig í dómstólum, en þeir hafa ekki ákveðið að gera það. Það er svo margt sem sýnir augljóslega en samt er þetta ákveðið. Þannig að ég sé einbeittan vilja til að komast að þessari niðurstöðu,“ sagði Erla Bolladóttir við fréttastofu eftir niðurstöðuna en hún greindi einnig frá því að hún hafi greinst með ólæknandi krabbamein.
„Ég á enga ósk heitari, hvað mig persónulega varðar, en að þetta mál fái sín endalok og fari bara fram formleg jarðarför á þessu öllu saman en það gerist ekki fyrr en að réttlæti kemur fram,“ sagði Erla í síðasta mánuði.
Tryggvi Rúnar Brynjarsson, dóttursonur og nafni eins dómþola í Guðmundar og Geirfinnsmálunum, segir þetta líklega eitt mesta hneykslið í málinu á þessari öld.
„Nú eru margar fjölskyldur í þessu máli búin að fá einhvers konar réttlæti, einhvern hluta af réttlæti, en enn þá ætlar ríkisvaldið og allar valdastofnanir að halda ábyrgðinni og skömminni á henni. Þetta getum við hin inni í málinu bara ekki sætt okkur við, þá er ekki komið neitt réttlæti í þessu máli,“ segir Tryggvi.

Nauðsynlegt að gera málið upp
Nokkur hundruð manns hafa á samfélagsmiðlum meldað sig á samstöðufund á Austurvelli klukkan tvö í dag.
„Þetta snýst smá um söguna, hvaðan við erum komin, en líka viljum við gera kröfu til þess að valdhafar geri eitthvað, að þeir upplifi ekki að þetta geti verið einhver endalok á þessu máli, að hafa bara hent málinu hennar Erlu Bolladóttur út,“ segir Tryggvi.
Þá vilja þau endurvekja tillögu um óháða rannsóknarnefnd Alþingis, sem fulltrúar fimm fjölskyldna dómþola studdu á sínum tíma, en auk Erlu voru Kristján Viðar Júlíusson og Sævar Marinó Cieselski sakfelldir fyrir rangar sakargiftir á sínum tíma.
„[Nefndin] átti að fara sérstaklega í þennan hluta, hinar röngu sakargiftir. Við viljum endurvekja þessa tillögu og þessa hugmynd um rannsóknarnefnd Alþingis til þess að fara ofan í þetta mál og til að geta gengið frá þessu í eitt skipti fyrir öll,“ segir Tryggvi.
Hann bindur vonir við að stjórnvöld sjái að sér en eitthvað þurfi að gerast til að bæta úr langri sögu þöggunar.
„Ég trúi því ekki að valdhafar, ég trúi því ekki að þingmenn, ég trúi því ekki að stjórnvöld eigi eftir að halda áfram að setja sig upp á móti raunverulegu uppgjöri. Ég held að þau muni sjá það og skilja það að það er nauðsynlegt að gera þetta mál alveg upp,“ segir Tryggvi Rúnar.