Guðlaugur segir að lögregla hafi upplýst hann strax eftir að upp komst um málið fyrir nokkrum vikum að mennirnir hafi rætt um að myrða hann. Honum hafi verið verulega brugðið vegna málsins.
„Þetta er auðvitað mjög óþægilegt og maður finnur líka sérstaklega fyrir því af því að það fyrsta sem maður hugsar er hvernig útskýrir þú þetta fyrir fjölskyldunni,“ segir Guðlaugur í samtali við fréttastofu.
„Við búum við það Íslendingar að búa í öruggu umhverfi og við viljum hafa það þannig en við tökum því sem gefnu og vonandi verður það um alla tíð. En jú þetta var hins vegar óþægilegt að fá þessar fregnir,“ segir hann enn fremur.
Fram kom á dögunum að karlmennirnir tveir sem sitja í gæsluvarðhaldi vegna málsins hefðu einnig talað um að bana sósíalistunum Gunnari Smára Egilssyni og Sólveigu Önnu Jónsdóttur. Þá hafi nöfn þingmanna og fyrrverandi þingmanna Pírata komið upp í samtölum þeirra.
Guðlaugur kveðst ekki vita nákvæmlega af hverju hann var nefndur í samskiptum mannanna og af hverju þeir vildu myrða hann.
„Það kom ekki fram af hverju en vanalegast er það nú út af því að stjórnmálamenn segja eitthvað eða gera eitthvað. Ég mun nú ekki víkja neitt frá minni sannfæringu frekar en fyrri daginn þrátt fyrir að þetta kom upp,“ segir Guðlaugur.
„Ég hef ég alla tíð barist fyrir frelsi einstaklinga sama hverjir þeir eru og kannski var það eitthvað sem hugnaðist mönnum ekki, ég kann ekki að segja frá því. Aðalatriðið er bara þetta, mér fannst viðbrögð lögreglu vera góð og fumlaus og við skulum vera ánægð með það,“ segir hann enn fremur.
„Það er mitt markmið að vera ekki að gera neitt sem geti truflað rannsóknarhagsmuni, ég held að það sé mjög mikilvægt að lögreglan og þar til bærir aðilar fái að vinna áfram að þessu máli,“ segir Guðlaugur.