Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, segir í samtali við fréttastofu að ungir nemendur í grunnskólanum hafi tekið sig til og safnað alls 168 undirskriftum þar sem lagt var til að sundlaug bæjarins yrði opin til klukkan 21 um helgar.
„Þeim fannst heldur stutt að hafa sundlaugina opna til klukkan 16 um helgar og vildu sjá lengingu. Málið fór fyrir frístunda- og menningarsvið bæjarins og svo bæjarráð þar sem vel var tekið í það að lengja opnunartímann til klukkan 18.

Þá vorum við búin að skoða hvernig þetta er hjá öðrum bæjarfélögum sem við berum okkur saman við. Það er nú allur gangur á því. Ekkert þeirra sveitarfélaga sem við skoðuðum er með opið í sundlauginni lengur en til 18 um helgar.
Við vorum því nokkurn veginn á sama stað og önnur sveitarfélög en það var vel tekið í að þetta unga og myndarlega fólk hefði einhverja rödd í bæjarmálunum og þetta var því samþykkt,“ segir Fannar.

Bæjarstjórinn segir að málinu hafi verið vísað inn í fjárhagsáætlunargerðina. „En það var vel tekið í þetta og ég á von á að þetta nái í gegn. Formlega á þó eftir að setja stimpilinn á þetta.“
Hann segist eiga von á að breytingar á opnunartíma sundlaugarinnar myndu taka gildi á sama tíma og fjárhagsáætlunin, það er um áramót. Að ýmsu þurfi þó að huga varðandi slíka breytingu, meðal annars því sem við kemur starfsfólki sundlaugarinnar.