Stéttarfélag kennara í Ardabil heldur því fram að Asra Panahi hafi verið barin til bana í Shahed-framhaldsskólanum þegar yfirvöld neyddu nemendur ólöglega til þess að taka þátt í viðburði til stuðnings ríkisstjórninni í síðustu viku. Þeim hafi meðal annars verið skipað að flytja lag til dýrðar æjatollanum Khomenei, æðsta leiðtoga landsins.
Við upphaf viðburðarins hafi nokkur fjöldi nemenda gert hróp að stjórnvöldum. Þá hafi bæði óeinkennisklæddir karlar og konur úr röðum öryggissveita ausið svívirðingum yfir nemendurna og barið þá. Eftir að kennsla hófst á ný hafi öryggissveitir gert rassíu í skólanum og barið suma nemendur enn meira. Nokkrir nemendur séu særðir og tíu handteknir. Panahi hafi látist á sjúkrahúsi skömmu síðar.
Írönsk yfirvöld hafna frásögn kennarasambands og fullyrða að Panahi hafi þjáðst af hjartagalla. Þingmaður Ardabil hélt því fram að stúlkan hefði svipt sig lífi með því að taka inn töflur, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.
Klerkastjórnin hefur gefið svipaðar skýringar á dauða annarra stúlkna í mótmælaöldu sem hefur gengið yfir landið undanfarnar vikur. Mótmælin hófust eftir að ung kona lést í haldi siðgæðislögreglu en fjölskylda hennar segir að hún hafi einnig verið barin til bana.
Ættingjar stúlknanna hafa meðal annars verið dregnir fram í ríkisfjölmiðla til þess að segja þær hafa þjáðst af heilsubresti sem skýri dauða þeirra.