Systurnar Aðalheiður og Harpa Vilbergsdætur eru meðal þeirra Reyðfirðinga sem í þættinum Um land allt á Stöð 2 lýsa breytingunum. Koma álversins réð úrslitum um það að þær byggðu upp sitt framtíðarheimili á Reyðarfirði en þær starfa báðar hjá Alcoa sem og eiginmenn þeirra.
„Ef álverið hefði ekki komið þá hefðu Austfirðir ekki verið það sem þeir eru í dag,“ segir Magnús Hilmar Helgason, framkvæmdastjóri iðnfyrirtækisins Launafls, sem sérstaklega var stofnað til að þjónusta álverið. Hjá því starfa núna um eitthundrað manns. Helmingurinn, um fimmtíu manns, vinnur á vélaverkstæði við hlið álversins við Mjóeyrarhöfn.

Í þéttbýlinu á Reyðafirði rekur Launafl rafmagnsverkstæði, blikkdeild, byggingadeild, pípulagningadeild en einnig verslun og lager. Á blikksmíðaverkstæðinu verða á vegi okkar tveir starfsmenn, þær Þuríður Sif Ævarsdóttir og Barbara Izabela Kubielas aðstoðarverkstjóri. Þær eru báðar aðfluttar, Þuríður úr Vestmannaeyjum og Barbara frá Póllandi.
Skammt innan kauptúnsins, á bænum Sléttu, spyrjum við bændur um afstöðu þeirra til álversins og áhyggjur af mengun frá starfseminni. Þar eru þau Sigurður Baldursson og Dagbjört Briem að draga sig út úr sauðfjárbúskapnum en dóttirin Þuríður Lillý og sambýlismaður hennar, Guðjón Már, að taka við.
Þáttinn má nálgast á streymisveitunni Stöð 2+.
Hér má sjá tíu mínútna kafla úr þættinum: