Elvar og félagar byrjuðu leikinn betur og leiddu með átta stigum að loknum fyrsta leikhluta. Rytas hafði svo mikla yfirburði í öðrum leikhluta þar sem liðið skoraði 27 stig gegn aðeins 15 stigum heimamanna og staðan var því 33-53 þegar gengið var til búningsherbergja.
Í síðari hálfleik snérist dæmið þó við og það voru heimamenn sem voru sterkari. Úlfarnir söxuðu jafnt og þétt á forskot Elvars og félaga og náðu loks að komast yfir um miðjan fjórða leikhluta. Það voru þó gestirnir í Rytas sem reyndust sterkari á lokamínútunum og þeir unnu að lokum nauman tveggja stiga sigur, 89-91.
Elvar skoraði sjö stig fyrir Rytas í dag, ásamt því að taka tvö fráköst og gefa átta stoðsendingar. Liðið situr nú í fimmta sæti deildarinnar með fjóra sigra í fyrstu sjö leikjum tímabilsins, en BC Wolves situr í þriðja sæti með fimm sigra.
Á Spáni gengur hvorki né rekur hjá Tryggva Snæ Hlinasyni. Hann spilaði tæplega sextán mínútur þegar Zaragoza tapaði fimmta leiknum sínum í röð. Að þessu sinni eftir framlengingu gegn Joventut, lokatölur 89-84. Tryggvi Snær skoraði tvö stig, tók tvö fráköst og gaf tvær stoðsendingar.