Sky Sports hefur séð bréfið sem er undirritað af Gianni Infantino, forseta FIFA, og Fatma Samoura, framkvæmdastjóra sambandsins. Í bréfinu hvetja þau þátttökuþjóðirnar á HM til að einbeita sér að fótboltanum og „forðast að draga hann inn í hverja einustu hugmyndafræðilegu eða pólítísku deilu sem fyrirfinnst.“
Rúmar tvær vikur eru þar til HM hefst. Umræðan fyrir mótið hefur að miklu leyti snúist um mannréttindabrot í Katar og ömurlegan og stórhættulegan aðbúnað verkafólks sem hefur fallið í valinn í þúsundatali við byggingu leikvanga fyrir HM.
En forráðamenn FIFA vilja helst ekki að þessi mál séu í umræðunni skömmu áður en flautað verður til leiks á 22. heimsmeistaramótinu. „Vinsamlegast, einbeitum okkur að fótboltanum!“ segir orðrétt í bréfinu. Þar segir einnig: „Allir eru velkomnir á mótið, óháð uppruna, bakgrunni, trú, kyni, kynhneigð eða þjóðerni.“ Þetta rímar þó ekki alveg við stefnu stjórnvalda í Katar.
Fyrstu leikirnir á HM fara fram 20. nóvember og mótinu lýkur svo með úrslitaleik 18. desember, á þjóðhátíðardegi Katar.