„Ég veit eiginlega ekki hvað skal segja. Hamingjan sanna!“ sagði þakklátur John Fetterman, nýkjörnum öldungardeildarþingmanni demókrata í Pennsylvaníu, eftir að sigur hans á sjónvarpslækninum Mehmet Oz varð ljós í nótt. Slagur þeirra var í eldlínunni í kosningabaráttunni, þeir mældust hnífjafnir fram á síðustu stundu, en Fetterman varð ofan á.
Og það gerðu Demókratar í talsvert meira mæli en reiknað var með. Þetta kom Guðmundi Hálfdánarsyni prófessor í sagnfræði á óvart. Hann eins og svo margir aðrir bjóst við svokallaðri „rauðri bylgju“.
„En eins og staðan er núna virðist það vera þannig að demókratar hafa mjög mikla möguleika á að halda öldungadeildinni þó það sé alls ekki ljóst á þessu augnabliki. Og ef repúblikanar vinna fulltrúadeildina verður það með frekar litlum mun,“ segir Guðmundur.
Skipan dómara undir í öldungadeildinni
Mikill eða lítill munur; hvort sem verður er tap í fulltrúadeildinni mikið högg fyrir Joe Biden Bandaríkjaforseta.
„En auðvitað því minnu sem munar, því meiri líkur eru á að hægt verði í að minnsta kosti sumum málum að ná samkomulagi yfir línuna. Þannig að demókratar gætu mögulega stoppað þau mál sem ganga hvað lengst í þá átt sem menn eins og Trump hafa verið að boða,“ segir Guðmundur.
Endanleg úrslit í öldungadeildinni verða þó mögulega ekki ljós fyrr en í desember, eftir aukakosningar í Georgíu. Guðmundur segir til mikils að vinna þar fyrir demókrata.
„Til dæmis skipan dómara, vegna þess að ef að repúblikanar hafa þar meirihluta geta þeir stoppað skipanir og myndu sjálfsagt gera það. Þannig að það hefur talsvert að segja.“
En hvað ætli skýri þetta góða gengi demókrata, þvert á kannanir? Kannanirnar sjálfar meðal annars, segir Guðmundur. Þær virðist erfiðar í framkvæmd í Bandaríkjunum og nái illa utan um lendingu atkvæða. En fleira komi til.
„Í útgönguspám er fólk spurt hvað réði þegar það kaus og þar virðist þungunarrof hafa skipt talsvert miklu máli,“ segir Guðmundur.