Matthías gengur til liðs við Víking frá FH þar sem hann hefur leikið seinustu tvö tímabil, en frá þessu er greint á heimasíðu Víkings.
Matti Villa mættur í Víkina!
— Víkingur (@vikingurfc) November 10, 2022
Knattspyrnudeild Víkings hefur komist að samkomulagi við Matthías Vilhjálmsson um að spila með liðinu næstu tvö leiktímabil.https://t.co/srLvrvtato
Matthías gekk í raðir FH árið 2004 eftir að hafa alist upp á Ísafirði. Hann lék meira og minna með liðinu til ársins 2013, en hann hefur einnig leikið með Start, Rosenborg og Vålerenga í Noregi og þá var hann einnig um tíma hjá Colchester á Englandi.
„Gríðarlega ánægður að hafa tryggt okkur þjónustu Matta næstu 2 árin, þetta er mikil leiðtogi og hæfileikaríkur leikmaður sem gefur okkur nýjan vinkil í sóknarleiknum. Maður sem er líka með knowhow í að vinna leiki og mót sem er eitthvað sem þú finnur ekki hvar sem er,“ sagði Kári Árnason, yfirmaður knattspyrnumála um leikmannaskiptin á heimasíðu Víkings og Arnar Gunnlaugsson, þjálfari liðsins, tekur í sama streng.
„Ég er gríðalega ánægður að fá Matta til liðs við okkur Vikinga. Ég hef þekkt hann í ansi mörg ár eða frá þvi við spiluðum saman hjá FH árið 2006. Matti er gæðaleikmaður sem hugsar mjög vel um sig og er hungraður í að hjálpa okkur við gera atlögu að titlum sem og að ná góðum árangri í Evrópukeppninni. Mikilvægast þó er að Matti er einstaklega góð manneskja sem mun hjálpa ungu leikmönnunum okkar að þroskast og bæta sinn leik,“ sagði Arnar.