Sæbýli hefur síðustu fimmtán ár þróað eigin klakstofn, tækni og framleiðsluaðferð við eldi á sæeyrum á Íslandi. Uppsetning eldisins er einstök á heimsvísu og sú fyrsta sinnar tegundar. Byggir hún á lóðréttu hillukerfi og vatnsendurnýtingu. Sæeyru eru í raun sæsniglar og eru ein verðmætasta eldistegund í heimi.
„Einstakar náttúruauðlindir á Íslandi með jarðvarma, hreinum borholusjó og grænni raforku gerir Sæbýli í samvinnu við HS Orku mögulegt að þróa umhverfisvænt skelræktarverkefni. Bæði félögin leggja áherslu á umhverfisvænt hringrásarkerfi og erum við því mjög ánægð hjá Sæbýli að ná þessum áfanga í uppbyggingu félagsins,“ er haft eftir Sigurði Péturssyni, stjórnarformanni Sæbýlis í tilkynningu.
Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku, segist vera afar spenntur fyrir samstarfinu við Sæbýli. Starfsmenn eldisfyrirtækisins búi yfir mikilli þekkingu og reynslu við uppbyggingu á eldisrekstri.
„Framleiðsla á sæeyrum fellur vel að hugmyndafræði Auðlindagarðsins, nýtir bæði grænt rafmagn og varma við framleiðsluna. En ekki síst lítum við jákvæðum augum á þá möguleika sem sæeyrnaeldið opnar á fyrir möguleg frekari samlegðaráhrif eldisfyrirtækja á svæðinu,“ segir Tómas.