Dæmi eru um bensínsprengjur, rúðubrot og hótanir í garð fjölskyldumeðlima í kjölfar hnífstunguárasarinnar sem átti sér stað á fimmtudag.
„Við fengum fréttir af því að aðilar hafi verið að hvetja til ofbeldis í kjölfarið á þessari árás. Ég get staðfest þetta sem þú nefnir að menn hafi verið að nota svona mólótov kokteila og valda fólki ónæði. Þetta hefur einnig orðið til þess að fólk hefur kosið að fara úr bænum,“ segir Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í fréttum Stöðvar 2, viðtalið má nálgast hér að ofan.
Hann segir þó almenningi ekki stafa hætta af átökunum.
„Ef svo myndi vera þá myndum við klárlega bregðast við því með viðeigandi ráðstöfunum.“
Frá því í gær hafa sex verið handteknir í tengslum við málið, þar af gaf einn sig sjálfur fram, og því alls tuttugu verið handteknir, þar af þrjár konur. Farið hefur verið fram á gæsluvarðhald yfir þremur hinum nýhandteknu en í gær höfðu níu verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna málsins.