Tvö myndbönd af árásinni í síðustu viku á skemmtistaðnum Bankastræti Club hafa verið í dreifingu á samfélagsmiðlum. Þar sést hvernig hópur vopnaðra manna ræðst á og stingur þrjá menn um tvítugt. Um var að ræða einhvers konar uppgjör milli tveggja hópa en hótanir höfðu gengið á víxl þeirra á milli í aðdraganda árásarinnar. Í framhaldinu hafa hótanir og hefndarárásir verði gerðar en síðast í nótt var bensín- og reyksprengjum kastað að heimahúsum.
„Við erum með einhver sex tilvik þar sem þessum hótunum hefur verið fylgt eftir,“ segir Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Dæmi séu þó um að fólk hafi veigrað sér við að tilkynna hótanir til lögreglu af ótta við gerendurna. Þrjátíu hafa verið handteknir í tengslum við árásina í Bankastræti Club og tíu eru núna í gæsluvarðhaldi vegna málsins. Þá hefur húsleit verið gerð á mörgum stöðum og lagt hald á nokkuð magn vopna.
„Þeir virðast vera bara með nóg af vopnum. Þá er ég að tala um barefli og það eru hnúajárn og það eru hnífar og svo skotvopn sem við erum að sjá líka.“
Árásarmennirnir eru margir í kringum tvítugt þó sumir séu eldri. Sá yngsti í haldi lögreglu er 17 ára. Margeir segir ungt fólk oftar tilbúið en áður að beita vopnum.
„Framkvæma bara því sem er hótað og láta verða af því.“
Líta á vopn sem einhvers konar varnartæki
Í sama streng tekur Úlfur Einarsson forstöðumaður Stuðla sem er meðferðarstöð ríkisins fyrir börn og unglinga frá 12 til 18 ára.
„Að það sé bara tiltölulega lítill munur að stinga einhvern svona, ef ég leyfi mér að segja kannski óábyrgt orðalag, svona pota kannski með hnífi í útlimi það sé kannski svo ekki mikið stórmál. Kannski sambærilegt við að slá til einhvers sem manni hefði fundist vera það eðlilega fyrir nokkrum árum síðan.“

Úlfur segir fleiri börn og ungmenni ganga með vopn og starfsfólk Stuðla hafi oft fjarlægt vopn af börnum sem þangað koma. Vopnin séu að ýmsum toga eins og steikarhnífar og skrúfjárn. Börnin gefi þær skýringar að þeim finnist þau þurfa að ganga með vopn.
„Líta á þetta sem einhvers konar varnartæki. Það ganga allir með hnífa og þá verða þau að gera það líka.“
Erfitt sé að átta sig hvað skýri þessa breytingu.
„Þetta er allavega þróun sem ég held að við þurfum að taka alvarlega og reyna að skoða betur.“
Lögregla er enn að reyna að átta sig á ástæðum árásanna.
„Það held ég að megi alveg fullyrða að þetta snýst um völd og ef þú hefur völd þá fylgir því einhver ágóði. Það held ég að sé alveg klárt mál og það er þá til að mynda peningar sem að eru fengnir af sölu jafnvel á fíkniefnum eða ólöglegri starfsemi eða hvernig sem það er,“ segir Margeir.