Breski miðillinn Telegraph greinir frá því að háttsettir aðilar innan Talibanahreyfingarinnar hafi nýtt háar greiðslur fyrir friðarviðræður til þess að fjárfesta í margskonar vinnuvélum sem síðan hafi verið leigðar út til verktaka í Katar.
Stór hluti háttsettra aðila innan hreyfingar Talibana var búsettur í Doha, höfuðborg Katar, frá 2013 þar sem þeir tóku þátt í friðarviðræðum við Sameinuðu þjóðirnar og Bandaríkin.
Katarar hafi fengið leyfi bæði SÞ og Bandaríkjanna til að greiða þeim mánaðarlega þóknun sem nam þúsundum punda, og Katarar með þeim hætti stuðlað að auknum friðarviðræðum við Vesturlönd.
Samkvæmt heimildamönnum Telegraph fór stór hluti þess fjár í fjárfestingar á búnaðinum sem hafi svo strax verið leigður katörskum verktökum. Gríðarleg uppbygging á bæði knattspyrnuvöllum og hvers kyns innviðum hefur átt sér stað í Katar frá því að ríkið tryggði sér gestgjafahlutverk HM 2022 árið 2010.
„Talibanar fjárfestu ríkulega í uppbyggingunni fyrir HM og mótið var gullgæs. Þeir græddu milljónir,“ er haft eftir heimildamanni Telegraph.
„Einhverjir meðlimir Talibana áttu á bilinu sex til tíu stór vinnutæki í Doha og græddu tugi þúsunda punda fyrir hverja vél á mánuði,“ er haft eftir honum enn fremur.
Ekkert bendir til misgerða katarskra yfirvalda eða að þau hafi tekið þátt í aðgerðum Talibana.
„Opið leyndarmál“
Haji Ahmad Jan, fyrrum ráðherra mála tengd jarðolíu og námum í Afganistan frá 1996 til 2001, er sagður hafa verið milliliður útleigu vélanna til verktaka og byggingarfyrirtækja.
„Það var opið leyndarmál í afganska ráðuneytinu í Doha að talibanska viðræðnateymið og pólitískur armur þess fengi vel greitt frá katörskum yfirvöldum og að þeir fjárfestu þeim greiðslum í vinnutæki fyrir HM,“ er haft eftir ónefndum fyrrverandi afgönskum diplómata í Doha.
Talibanar voru við völd í Afganistan frá 1996 til 2001, en misstu völd það ár þegar Bandaríkin réðust inn í landið. Eftir að Bandaríkjamenn hófu að draga herafla sinn burt frá ríkinu á síðasta ári hertóku Talibanar fjölda héraða í Afganistan á ný og sneru aftur til valda í ágúst þegar þeir hertóku höfuðborgina Kabúl.