Fjallað var um upphaf loðnuvertíðarinnar í fréttum Stöðvar 2 en hafrannsóknaskipin Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson voru bæði við loðnuleit alla síðustu viku ásamt Beiti, skipi Síldarvinnslunnar.

Útgerðarfyrirtækin kostuðu leitina í von um að meiri loðna fyndist. Þær vonir brugðust en lítið sást af loðnu á miðunum, að sögn Guðmundar Óskarssonar, sviðsstjóra uppsjávarsviðs hjá Hafrannsóknastofnun, og sagði hann magnið það lítið að það gæfi ekki tilefni til þess að endurskoða loðnukvótann.
Rannsóknaskipin leituðu vestur og norður með landinu, á meðan Beitir kom á móti þeim að austan, og mat Guðmundur það svo að megnið af loðnunni væri enn undir hafísnum út af Vestfjörðum.

Rannsóknaskipin voru hins vegar vart farin af miðunum heim til Hafnarfjarðar þegar loðnuskipin Beitir NK og Víkingur AK hófu að kasta á loðnu austan við Kolbeinseyjarhrygg á laugardag. Beitir var í dag kominn með rúm ellefu hundruð tonn en Víkingur tæp sexhundruð tonn.

Skipstjórinn á Beiti, Sturla Þórðarson, lýsti loðnunni sem fallegri og sama sagði skipstjórinn á Víkingi, Róbert Hafliðason, sem áformaði að landa henni á Vopnafirði í fyrramálið til frystingar í uppsjávarvinnslu Brims.
Beitir mun hins vegar sigla inn til Norðfjarðar til löndunar hjá Síldarvinnslunni og býst Sturla við að koma þangað um miðjan dag.

Hafrannsóknastofnun áformar aðra loðnuleit í janúar og eftir hana skýrist hvort loðnukvótinn verði aukinn. En svo mikið er víst: Loðnuvertíðin er hafin.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: