Jólamolar Vísis munu birtast reglulega fram að jólum. Þar fáum við að kynnast þjóðþekktum einstaklingum í nýju ljósi og komast að því hvað það er sem kemur þeim í jólagírinn. Jólamolunum er ekki síður ætlað að koma lesendum Vísis í hið eina sanna hátíðarskap.
Hvort myndirðu skilgreina þig sem Elf eða The Grinch?
„Ég er Elf , allan daginn. Jólin eru skemmtilegasti tíminn! Mér finnst reyndar vanta allan snjó í ár. Getur ekki einhver græjað það?“
Hver er þín uppáhalds jólaminning?
„Uppáhalds jólaminningin hlýtur að vera þegar við fjölskyldan ákváðum að sleppa sparifötunum og vera bara á náttfötunum. Það var fyrir tíu árum og síðan þá höfum við alltaf verið á náttfötunum á aðfangadag. Sumum vinum mínum finnst það einkennilegt en mér finnst það þægilegt. Maður nýtur sínum mun betur í þægilegum fötum.“
Hver er eftirminnilegasta jólagjöf sem þú hefur fengið?
„Myndavél sem ég fékk frá bróður mínum, Árna Beinteini, árið 2012. Hún kom sér heldur betur vel og ég hef ábyggilega búið til yfir þúsund stuttmyndir með henni. Ég á hana enn þann dag í dag en nú er hún meiri safngripur.“
Hver er versta jólagjöf sem þú hefur fengið?
„Ég fékk einu sinni útrunnar hnetur í poka frá vini mínum. Þetta er ekki einu sinni grín. Það var mjög spes. Ég þakkaði honum samt kærlega fyrir - enda hugurinn sem skiptir máli. Maður á að vera þakklátur á jólunum, enginn tími fyrir vesen.“
Hver er uppáhalds jólahefðin þín?
„Á eftir því að vera alltaf í náttfötum á jólunum hlýtur uppáhalds jólahefðin mín að vera möndlugrauturinn, hundrað prósent! Ég fæ líka eiginlega alltaf möndluna og ef ekki þá svindla ég og bæti við möndlu í minn graut. Það er klassískt. Við endum jólagrautinn á leik af blikkmorðingja og þá er sá sem fékk möndluna morðinginn og á að reyna drepa hina.“
Hvert er þitt uppáhalds jólalag?
„Cashmere draumur með Herra Hnetusmjör og Birgittu Haukdal er uppáhalds lagið mitt í augnablikinu. Það er galið gott. Idol dómararnir kunna þetta.“
Hver er þín uppáhalds jólamynd?
„Christmas Vacation. Þar klúðrast einhvern veginn allt, svolítið eins og í raunveruleikanum. Jólin hafa ekki alltaf verið auðveld en þá er mikilvægt að vera jákvæður og líta á björtu hliðarnar. Vera þakklátur fyrir þau jól sem hafa gengið vel og áfallalaust fyrir sig.“
Hvað borðar þú á aðfangadag?
„Við bræður fáum okkur yfirleitt bara eitthvað af handahófi. Einu sinni borðuðum við til dæmis Fabrikkuborgara á jólunum. Við erum alls ekki of uppteknir af hefðum.“

Hvers óskar þú þér í jólagjöf í ár?
„Mig sárvantar Gucci armband, svo það er efst á listanum. En ég sætti mig líka við sokkapar eða bara hvað sem er. Annars finnst mér betra að gefa en þiggja.“
Hvað er það sem hringir inn jólin fyrir þér?
„Það sem hringir inn jólin fyrir mér er þegar við bræður tökum lagið saman á píanóinu og fjölskyldan dansar í kringum tréð heima hjá okkur. Við eigum líka geggjaða jólasveinabúninga sem við hendum okkur stundum í. Það vekur mikla lukku. Fjölskyldan er mér mikilvægust á tímum jólanna.“
